Ég er gríðarlega svekktur

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er gríðarlega svekktur eins og alltaf eftir tapleiki og ég hefði hugsanlega verið svekktur líka með jafnteflið.“ Þetta sagði Óli Stefán Flóventsson eftir 0:1 KA-manna gegn Breiðabliki í 4. umferð Pepsi-Max-deild karla nú í kvöld.

„Í þessu starfi verð ég að horfa í það sem er verið að gera vel og rétt og halda áfram. Á meðan við erum að spila svona og gera réttu hlutina þá get ég ekki beðið um meira.“

„Frammistaða minna manna var mög góð. Ég er mjög stoltur af öllum sem spiluðu í dag. Fyrstu tíu mínúturnar vorum við aðeins of langt frá þeim og þeir fengu nokkur skotfæri en eftir að við náðum stjórn á leiknum þá fannst mér bara tímaspursmál hvenær við gætum troðið boltanum inn.“

„Við skorum mjög gott mark sem er dæmt af og ég set spurningarmerki við atvikið undir lok leiks þegar þeir bjarga á línu með hendi sem á að vera samkvæmt þessu regluverki dómaranna víti en það er ekki að detta fyrir okkur heldur.“

Seinasti dagur félagsskiptagluggans á Íslandi er í dag. Má búast við einhverjum breytingum á KA-liðinu?

„Nei alls ekki, ég er ánægður með þann hóp sem við erum með og ég verð fegnasti maðurinn á Íslandi þegar þessi gluggi lokar þannig að maður fái frið fyrir þessum spurningum,“ sagði Óli Stefán.

mbl.is