Góð byrjun nýliðanna orðin glæsileg

Halldór Orri Björnsson og Stefán Teitur Þórðarson í baráttu um …
Halldór Orri Björnsson og Stefán Teitur Þórðarson í baráttu um boltann á Akranesi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góð byrjun nýliða ÍA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta hélt áfram í kvöld er liðið lagði FH á heimavelli, 2:0, í fjórðu umferðinni. ÍA er með tíu stig eftir þrjá sigra og eitt jafntefli. 

Skagamenn byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á þriðju mínútu. Þeir voru þá eldsnöggir í skyndisókn. Tryggvi Hrafn Haraldsson stakk alla vörn FH af og lagði boltann á Bjarka Stein Bjarkason sem kláraði vel af stuttu færi.

Eftir markið voru Skagamenn betri og voru þeir líklegri til að bæta við en FH að jafna. Tryggvi Hrafn var nálægt því að skora sjálfur um miðjan fyrri hálfleik, en hann skaut hársbreidd framhjá rétt utan teigs.

Bjarki komst svo einn í gegn undir lok hálfleiksins, en Vignir Jóhannesson í marki FH, varði vel. Besta færi FH kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Björn Daníel Sverrisson náði hins vegar ekki að skora með skalla eftir hornspyrnu, þótt hann hafi nánast staðið á marklínunni. Árni Snær Ólafsson í marki ÍA var snöggur að hugsa og varði vel frá honum. 

Bæði lið fengu ágæt færi til að skora í seinni hálfleik og voru það heimamenn sem bættu við öðru marki. Aftur var það Bjarki og nú með fallegu skoti í slá og inn á 69. mínútu. Vont varð verra hjá FH, þar sem Pétur Viðarsson fékk beint rautt spjald fyrir mótmæli, aðeins tveimur mínútum síðar. 

Eftir það skapaði hvorugt liðið sér færi og góð byrjun Skagamanna er orðin að glæsilegri byrjun. 

ÍA 2:0 FH opna loka
90. mín. Skagamenn eru búnir að gera vel í að drepa leikinn. Ekkert búið að gerast síðustu mínútur.
mbl.is