Stjarnan vann Víking í markaleik

Sölvi Geir Ottesen og Guðjón Baldvinsson í baráttunni í Laugardalnum …
Sölvi Geir Ottesen og Guðjón Baldvinsson í baráttunni í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjörnumenn eru enn ósigraðir í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu eftir sigur á Víkingi, 4:3, þegar liðin mættust í fjórðu umferð á gervigrasvellinum í Laugardal í kvöld. Um bráðfjörugan leik var að ræða enda sjö mörk skoruð.

Leikurinn var jafn framan af en Hilmar Árni Halldórsson braut ísinn eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann kom Stjörnunni yfir eftir snarpa sókn, en mark virtist fjarri því liggja í loftinu. Nokkrum mínútum síðar lagði Hilmar Árni svo upp mark fyrir Guðjón Baldvinsson sem kom Stjörnunni í 2:0 og þannig var staðan í hálfleik.

Stjarnan gerði svo út um leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Guðjón skoraði aftur. Þorsteinn Már Ragnarsson vann þá boltann af Dofra Snorrasyni í vörn Víkings, kom honum á Guðjón sem skoraði. Staðan orðin 3:0 og Víkingar slegnir enn frekar út af laginu strax eftir hlé.

Þeir náðu þó vopnum sínum á ný og Ágúst Hlynsson, sem var mjög sprækur í leiknum, minnkaði muninn fyrir Víkinga skömmu eftir þriðja markið. Nikolaj Hansen átti þá skalla sem var varinn og Ágúst fylgdi áræðinn á eftir og skoraði. Staðan 3:1 og komið fjör í leikinn á ný.

Sú spenna entist hins vegar ekki lengi, því Alex Þór Hauksson skoraði þegar um 25 mínútur voru eftir þar sem Þorsteinn Már átti heiðurinn af undirbúningnum eins og í þriðja markinu. Júlíus Magnússon minnkaði muninn fyrir Víking þegar tæpar 20 mínútur voru eftir í kjölfar skógarferðar Haraldar Björnssonar í marki Stjörnunnar.

Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, hleypti svo heldur betur spennu í leikinn þegar hann skoraði eftir hornspyrnu undir lok venjulegs leiktíma. Staðan 4:3 og Víkingar sóttu stíft í uppbótartíma, en Stjörnumenn héldu út og uppskáru stigin þrjú.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Þá er nánar fjallað um alla leiki kvöldsins á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

Víkingur R. 3:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Ágúst Eðvald Hlynsson (Víkingur R.) á skot framhjá +2. Flott tilraun, beint úr aukaspyrnu. Ágúst skrúfaði boltann yfir vegginn og svo rétt yfir markið.
mbl.is