„Það virðast hafa opnast flóðgáttir“

Guðjón Baldvinsson skorar fyrir Stjörnuna gegn Víkingi í kvöld.
Guðjón Baldvinsson skorar fyrir Stjörnuna gegn Víkingi í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Jú, klárt mál og það er bara okkur að kenna. Þeir breyttu ekki um taktík eða neitt, við bara gáfum eftir,“ sagði Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, við mbl.is aðspurður hvort Garðbæingar hefðu ekki gert leikinn óþarflega spennandi í 4:3-sigri á Víkingi í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Hann játaði það að Stjörnumenn hafi eiginlega haldið að sigurinn væri í höfn.

„Já mér fannst það. Strax eftir 3:0 og svo 4:1 aftur. Víkingarnir eru mjög góðir, hafa verið óheppnir með úrslit og mér finnst þeir eiga meira skilið. Þeir þora að spila boltanum og það er mjög erfitt að mæta þeim,“ sagði Guðjón.

Hann tók undir að þó það væri vont að fá á sig þrjú mörk þá væri gott að skora fjögur.

„Það virðast hafa opnast flóðgáttir. Það er mikið búið að tala um að við skorum ekki úr opnum leik. En við vitum að við skorum alltaf mikið af mörkum. Fyrstu leikirnir á tímabilinu eru oft erfiðir, veðrið og vellirnir, en vonandi er þetta það sem koma skal.“

Guðjón skoraði sjálfur tvö mörk í leiknum í kvöld og voru það hans fyrstu mörk í sumar. Það er ákveðinn léttir sem fylgir því.

„Já, það er það. Sem framherji vill maður skora, en það hefði ekki talið mikið hefðum við klúðrað þessum leik. Svo það er extra sætt líka,“ sagði Guðjón, og segir byrjunina á tímabilinu vera eftir áætlun í Garðabæ þar sem liðið er enn ósigrað.

„Ég hef sagt það áður að við erum í þessu til þess að vinna alla leiki. Við höfum sýnt það í byrjun, þó veðrið geti gert leikina svolítið sérstaka í byrjun móts, þá höfum við sýnt að það er erfitt að skapa færi á móti okkur. Nema við gerum það sjálfir eins og hérna í dag,“ sagði Guðjón Baldvinsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert