„Algjör þvæla og uppspuni“

Hannes Þór Halldórsson markvörður Vals.
Hannes Þór Halldórsson markvörður Vals. mbl/Hari

„Það er rosalega þungi fargi létt af okkur,“ sagði Hannes Þór Halldórsson markvörður Vals eftir sigur sinna manna gegn Fylki 1:0 í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Það er mikið búið að ganga á hjá okkur. Það er búin að vera mikil pressa á okkur, neikvætt umtal og menn hafa þurft að kafa svolítið djúpt til að halda haus og láta þetta ekki hafa áhrif á sig. Það var mikið undir í kvöld og það var gríðarlega sætt að vinna leikinn á þennan hátt, með seiglu og vinnusemi,“ sagði Hannes Þór sem svo sannarlega sá til þess að Valsmönnum tókst að vinna leikinn en hann varði frábærlega skalla frá Ólafi Inga Skúlasyni undir lok leiksins.

„Fylkismennirnir eru með flott lið og þeir herjuðu mikið á okkur á lokaflanum. Við byrjuðum mjög sterkt og vorum ákveðnir í að bæta fyrir síðustu leiki. Fylkismennirnir eru engin lömb að leika sér við og við þurfum að hafa mikið fyrir sigrinum.“

Þú þurftir að heldur betur að taka upp sparihanskana undir lokin og náðir að svara þeirri gagnrýni sem þú hefur fengið að undanförnu?

„Það var gaman að eiga eina svona fína vörslu frá Óla vini mínum. Það hefði verið helvíti fúlt að horfa á gottandi smettið á honum ef hann hefði skorað. Þetta hefur ekki gengið sem skildi hjá mér og liðinu. Ég veit hvað í mér býr. Sem markvörður þarft þú að taka það sem kemur á markið. Stundum hittir þú ekki á daginn þinn. Maður verður hins vegar að hafa trú á sér og halda áfram.“

Getur þú eitthvað tjáð þig um þennan farsa sem hefur verið í kringum Gary Martin?

„Það eina sem ég vil segja um þetta mál er þessi umræða þar sem mitt nafn, Birkis Más og Bjarna hefur verið dregið inn í þetta er algjör þvæla og uppspuni frá rótum. Annað hef ég ekki um málið að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert