Þægilegur fyrsti sigur HK

Máni Austmann Hilmarsson úr HK með boltann og Víðir Þorvarðarson ...
Máni Austmann Hilmarsson úr HK með boltann og Víðir Þorvarðarson sækir að honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK vann í kvöld sinn fyrsta sigur á tímabilinu í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, með því að sigra ÍBV á all öruggan hátt, 2:0, í Kórnum í Kópavogi.

Birkir Valur Jónsson og Ásgeir Marteinsson skoruðu mörk HK í fyrri hálfleik og þá missti ÍBV Guðmund Magnússon af velli með rautt spjald strax á 28. mínútu.

HK er þá komið með 4 stig eftir fjórar umferðir en Eyjamenn sitja eftir á botninum með eitt stig.

HK náði undirtökunum með marki strax á 14. mínútu. Ásgeir Marteinsson tók hornspyrnu frá hægri og sendi inná markteig þar sem Birkir Valur Jónsson reis hæst og skoraði með föstum skalla í hægra hornið, 1:0.

Eyjamenn urðu fyrir næsta áfalli á 28. mínútu þegar Guðmundur Magnússon, sem hafði verið þeirra líflegasti maður fram að því, fékk rauða spjaldið fyrir brot á miðjum vellinum. Egill Arnar Sigurþórsson dómari hikaði ekki og rak hann af velli.

Liðin fengu sitthvort færið eftir þetta en í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði HK aftur. Stórglæsileg sókn upp hægra megin, Birkir Valur komst að endamörkum og renndi út í miðjan vítateig þar sem Ásgeir skoraði með föstu skoti, 2:0.

HK hélt öruggum tökum á leiknum lengst af í seinni hálfleik og hefði hæglega getað bætt við þriðja markinu þegar liðið fékk nokkur mjög góð færi. Máni Austmann Hilmarsson var næstur því að skora þegar hann átti hörkuskot í stöng.

Rafael Veloso í marki ÍBV gerði mjög vel á 81. mínútu þegar hann varði hörkuskot Ásgeirs Marteinssonar í horn.

Eyjamenn virtust aldrei hafa trú á að þeir gætu komist inní leikinn aftur. HK réð ferðinni og hefði með aðeins meiri yfirvegun í marktækifærunum bætt við mörkum. Máni Austmann fór sérstaklega illa með færin en hann fékk hefði getað skorað tvö til þrjú mörk í seinni hálfleiknum.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

HK 2:0 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið Sannfærandi sigur HK í höfn
mbl.is