Vonandi heldur þetta áfram svona

Marc McAusland kom til Grindavíkur frá Keflavík fyrir sumarið.
Marc McAusland kom til Grindavíkur frá Keflavík fyrir sumarið. Ljósmynd/Knattspyrnudeild Grindavíkur

„Við vorum hungraðri en þeir og við vildum sigurinn meira. Við höfum sýnt góða hluti í síðustu tveimur leikjum og lagt rosalega mikið á okkur,“ sagði skoski varnarmaðurinn Marc McAusland í samtali við mbl.is í kvöld. 

McAusland lék vel í vörn Grindavíkur í 1:0-sigri á Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Leikurinn var jafn og var lítið um færi. Félagi McAusland í vörninni, Josip Zeba, skoraði sigurmarkið með skalla eftir horn. 

„Það var ekki mikið um færi og ég fann á mér að eitt mark yrði nóg til að vinna leikinn. Það var mjög gott að halda hreinu líka, sérstaklega fyrir mig sem varnarmann. Ég reyni að standa mig og vona að framherjarnir skori, en í dag var það Zeba, félagi minn í vörninni,“ sagði McAusland og er hann ánægður með samstarf sitt og Zeba. 

„Hann er mjög góður leikmaður og hann er reynslumikill eins og ég sjálfur. Við vinnum vel saman og það sést á frammistöðunni okkar. Það verður bara betra og betra.“

Hann segir andrúmsloftið í herbúðum Grindvíkinga afar gott, eftir tvo sigurleiki í röð. 

„Andrúmsloftið er mjög gott í hópnum, eins og má búast við eftir tvo sigra í röð. Það var mjög gott að halda hreinu í fyrsta skipti í sumar líka. Vonandi heldur þetta áfram svona,“ sagði McAusland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert