Fyrirliði FH vitnaði í Rocky Balboa

Guðmundur Kristjánsson með boltann í Kaplakrika í kvöld.
Guðmundur Kristjánsson með boltann í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði FH, sagði sigurinn gegn Val í Pepsí Max-deildinni í Kaplakrika í kvöld vera enn sætari vegna þess að FH tapaði í síðustu umferð fyrir toppliði ÍA. 

„Þessi sigur er rosalega mikilvægur. Það hefði verið leiðinlegt að tapa tveimur leikjum í röð og því er þessi enn sætari fyrir vikið. Það skiptir víst ekki máli hvort þú sért sleginn niður heldur hvort þú getir staðið upp á ný,“ sagði Guðmundur sposkur og vitnaði þar í kvikmyndapersónuna Rocky Balboa. 

„Við vorum hundfúlir yfir tapinu á Skaganum. Við höfðum undirbúið ýmsa hluti sem við klikkuðum á.“

FH fékk á sig tvö mörk eftir hornspyrnur í kvöld en Guðmundur benti á að Valur hafi fengið óvenjumargar hornspyrnur í leiknum en þær voru alls sextán talsins. „Við fengum margar hornspyrnur á okkur og því var kannski ekki óeðlilegt að Valur skyldi skora eftir horn. Okkur gekk reyndar illa að verjast föstum leikatriðum í fyrra en það hefur gengið betur í ár þrátt fyrir þessi tvö mörk í kvöld.“

Skotinn Steven Lennon átti erfitt uppdráttar á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla og hafði ekki sett mark sitt á Íslandsmótið þar til í kvöld. Hann kom inn á eftir 73 mínútur og skilaði marki og stoðsendingu fyrir FH. Hversu mikilvægt er fyrir FH að hann nái sér á strik?

„Það er rosalega mikilvægt. Hann var meiddur lengi og ekki tókst að finna hvað var að. Hann var því á hálfum krafti í vetur. Þú sérð áhrifin sem hann hefur enda hefur hann verið einn besti leikmaður deildarinnar. Það er hrikalega mikilvægt að fá hann öflugan inn í liðið,“ sagði Guðmundur Kristjánsson þegar mbl.is tók hann tali í Kaplakrika. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert