Annar sigur Grindavíkur í röð

Grindavík hafði betur gegn Fylki.
Grindavík hafði betur gegn Fylki. Ljósmynd/Hilmar Bragi / Víkurfréttir

Grindavík vann sinn annan sigur í röð í Pepsi Max-deild karla í í fótbolta í kvöld. Grindavík hafði þá betur á móti Fylki á heimavelli, 1:0.  

Fylkismenn byrjuðu ágætlega og var boltinn mikið á vallarhelmingi Grindavíkur framan af. Illa gekk hins vegar að skapa færi og þegar líða tók á hálfleikinn komst Grindavík betur inn í leikinn. 

Sömu sögu var hins vegar að segja um sóknarleik Grindvíkinga. Þrátt fyrir ágætissóknir gekk illa að reyna á Aron Snæ Friðriksson í markinu. Hvorugur markmaðurinn þurfti að taka á honum stóra sínum í hálfleiknum og var staðan í leikhléi því markalaus. 

Grindvíkingar voru sterkari fyrri hluta seinni hálfleiks og komst liðið nokkrum sinnum í fínar stöður. Það gekk hins vegar illa að reka endahnútinn á sóknirnar og voru varnarmenn beggja liða sterkari en sóknarmennirnir. 

Það var einmitt varnarmaður sem skoraði fyrsta markið. Josip Zeba skallaði í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu Arons Jóhannssonar á 75. mínútu. Eftir það pressuðu Fylkismenn nokkuð, án þess þó að skapa sér færi, og Grindavík tók stigin þrjú. 

Grindavík 1:0 Fylkir opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert