Fann um leið að þessi bananabolti væri inni

Valskonur skoruðu fjögur mörk í Kórnum í kvöld.
Valskonur skoruðu fjögur mörk í Kórnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Mist Edvardsdóttir átti frábæra innkomu í leik HK/Víkings og Vals í kvöld í Pepsi max-deild kvenna í knattspyrnu. Valur fór með sigur af hólmi með fjórum mörkum gegn engu. Mbl.is ræddi við Mist og Gígju Valgerði Harðardóttur, varnarmann HK/Víkings.

Mist skoraði draumamark flestra fótboltamanna þegar hún lét vaða af um 25 metra færi, skrúfaði boltann yfir markmann andstæðinganna þannig að hann datt ofan í markið, óverjandi. Þegar hún var spurð hvernig þetta atvikaðist sagði hún: „Guðrún Karítas var með okkur í stórkostlegri skotkeppni í hálfleik en ég var langlélegust í þeim leik en þar varð ég samt heit, þannig að ég fann það um leið og ég skaut að þessi bananabolti væri inni.“

Mist Edvardsdóttir.
Mist Edvardsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er mjög sátt við leik míns liðs hérna í kvöld. HK/Víkingi hefði liðið betur að fara inn í hálfleikinn með markaleysi beggja liða og okkur hefði liðið verr, þannig að það var gott að fá þetta mark. Mér fannst ekkert slakna á þeim við fyrsta markið, það var meira þannig að þær misstu aðeins skipulag eftir annað markið. Undir lok leiksins slökuðu þær á en þá opnaðist meira pláss fyrir okkur og þetta varð þægilegra,“ segir Mist um leikinn sjálfan.

Um framhaldið, næsta leik við Selfoss, segir hún: „Við höfum átt erfitt með Selfossi í gegnum tíðina og vitum að það er hörkuleikur fram undan. Þær eru sýnd veiði en ekki gefin,“ segir Mist og heldur kát inn í kvöldið.

Við erum ekkert að fara á taugum

Gígja Valgerður stóð vaktina í vörn HK/Víkings og hún segir: „Planið var að bíða eftir þeim í lágpressu, halda þeim og nýta svo svæðin sem mynduðust við það hjá þeim og sækja þá á þær. Það gekk alveg ágætlega framan af í fyrri hálfleik og við náðum alveg að skapa okkur einhver færi. Mér fannst þær heldur ekki ná að skapa mörg opin færi í fyrri hálfleik þannig að við vorum alveg að standa okkur, plús það að Halla Margrét var að verja mjög vel. Svo það var mjög svekkjandi að fá þetta mark á sig svona rétt fyrir hálfleik.“

Gígja Valgerður Harðardóttir, lengst til hægri á mynd.
Gígja Valgerður Harðardóttir, lengst til hægri á mynd. mbl.is/Ómar

„Við komum með sama hugarfar og sama „gameplan“ inn í seinni hálfleikinn og auðvitað vissum við að við þyrftum að skora til að eiga einhvern séns. Svo urðum við bara þreyttari en þær, enda hraður leikur, og þær náðu að opna okkur miklu meira. Guðrún Gyða fékk séns til að koma okkur í 1-2 og hleypa meira lífi í leikinn, þarna með skallanum, en Sandra varði frá henni og eftir það þá var þetta bara of erfitt hjá okkur,“ segir hún um seinni hálfleik síns liðs.

Stemmningin er góð í hópnum og þær sem lið hlakka bara til framhaldsins, en Gígja segir að lokum: „...við erum ekkert að „panikka“, við vitum að ef við höldum áfram að spila okkar leik þá kemur þetta hjá okkur“. HK/Víkingur mætir Fylki á útivelli í næstu umferð. 

mbl.is