Frábær fyrsti sigur KR

Þórunn Helga Jónsdóttir kemur boltanum í burtu í baráttu við …
Þórunn Helga Jónsdóttir kemur boltanum í burtu í baráttu við Cloé Lacasse í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR vann sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu þetta tímabilið þegar liðið tók á móti ÍBV í kvöld. Þrátt fyrir að vera einum færri allan síðari hálfleikinn unnu KR-ingar 2:1 og fögnuðu sínum fyrsta sigri vel og innilega í leikslok.

Heimakonur voru með mikla yfirburði lengst af í fyrri hálfleik og uppskáru mark á 14. mínútu. Eftir klafs í utanverðum teignum lét Lilja Dögg Valþórsdóttir vaða að marki, boltinn fór yfir Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV og í netið. Staðan 1:0 fyrir KR.

Aftur dró til tíðinda á 37. mínútu, en þá fékk Laufey Björnsdóttir í liði KR sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir tvö nokkuð klaufaleg brot. Eyjakonur höfðu átt erfitt uppdráttar fram að þessu en hresstust nokkuð í kjölfarið. Það voru hins vegar KR-ingar sem áttu næsta leik, því á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Ingunn Haraldsdóttir eftir að Guðný missti boltann frá sér í kjölfar hornspyrnu. Staðan 2:0 í hálfleik fyrir KR.

Eyjakonur mættu gríðarlega grimmar inn í síðari hálfleikinn, manni fleiri, pressuðu stíft og áttu meðal annars tvær tilraunir í þverslá auk þess sem KR bjargaði á línu. Sóknarþunginn bar hins vegar árangur þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir þegar Cloé Lacasse skoraði af fjærstöng eftir fyrirgjöf frá hægri, staðan orðin 2:1 og spennandi lokakafli framundan.

ÍBV lagði allt í sölurnar á lokasprettinum til þess að ná inn öðru marki en KR hélt út þrátt fyrir þunga pressu og uppskar langþráðan sigur, sinn fyrsta í deildinni í ár, 2:1. Liðin eru nú bæði með þrjú stig að loknum fjórum umferðum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Nánar er svo fjallað um alla leiki kvöldsins á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

KR 2:1 ÍBV opna loka
90. mín. Hættuleg aukaspyrna inn á vítateig KR en auðvitað er Katrín Ómarsdóttir mætt til að skalla frá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert