Þurfum að fara að koma okkur á blað

Keflvíkingar eru enn án stiga eftir fjóra leiki.
Keflvíkingar eru enn án stiga eftir fjóra leiki. mbl.is/Hari

„Það er mjög erfitt að lýsa þessum vonbrigðum. Það er mjög erfitt að fara héðan tómhentur eftir virkilega flotta frammistöðu hjá stelpunum,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, eftir grátlegt 3:2 tap gegn Selfossi í Pepsi Max deild-kvenna í knattspyrnu á Selfossi í kvöld.

„Við áttum frábæra kafla í þessum leik, skoruðum flott mörk og baráttan var til fyrirmyndar. Ég held að hvaða lið sem er sem hefur lagt svona mikið í leikinn væri súrt að fara frá borði með ekkert stig. Það hefði gefið okkur gríðarlega mikið, við þurfum að fara að koma okkur á blað í þessari deild,“ en Selfoss skoraði sigurmarkið á lokamínútunni.

Keflavík er nýliði í Pepsi Max-deildinni og Gunnar segir hvern leik vera lærdóm fyrir hans unga lið sem hefur litla reynslu af efstu deild.

„Í svona deild er okkur refsað fyrir minnstu mistök og ef einbeitingin fer eitt andartak þá er okkur refsað. Við fórum illa að ráði okkar í varnarleiknum í marki númer tvö og því fór sem fór. Við lögðum ekki upp með það að falla til baka eftir að við komumst yfir en það gerist kannski ósjálfrátt. Við ætluðum að verja forskotið. Við bættum verulega í eftir að þær jafna og gerðum harðan atgang að þeirra marki til þess að ná þriðja markinu en fáum svo blauta tusku í andlitið þar sem þær gera þriðja markið,“ sagði Gunnar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert