Valskonur létu ljós sitt skína

Isabella Eva Aradóttir með boltann í Kórnum í kvöld en …
Isabella Eva Aradóttir með boltann í Kórnum í kvöld en Valskonur sækja að henni. mbl.is/Árni Sæberg

Valskonur mættu galvaskar til leiks í Kórinn í kvöld í 4. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta og fóru með 4:0-sigur af hólmi. Við þeim blasti varnarmúr af vel skipulögðum HK/Víkingum sem voru vinnusamar en sóttu lítið framan af. HK/Víkingar sóttu í sig veðrið þegar líða tók á leikinn, héldu boltanum betur og áttu nokkur markskot. Það var ekkert sem Sandra Sigurðardóttir átti í erfiðleikum með.

Valskonur voru hættulegar allan tímann og sóttu látlaust á 4-6 mönnum á þennan varnarmúr HK/Víkings. Halla var frábær í marki heimamanna. Það virtist stefna í markalausan fyrri hálfleik þegar klukkan datt í 45. mínútu, en Elín Metta var ekki á sama máli. Hlín átti frábæra sendingu inn á Elínu Mettu sem sneri af sér mann, fór upp að markinu og lagði boltann snyrtilega í hornið. Staðan 1:0 fyrir gestina í hálfleik. Blaut tuska í andlit heimastúlkna.

Uppleggið í seinni hálfleik var að ýta HK/Víkingsvörninni upp og hafa 4 í öftustu línu en ekki 5 eins og í þeim fyrri. Valskonur þökkuðu fyrir það og voru stórhættulegar allan hálfleikinn og mörkin komu í öllum regnbogans litum.

Elísa Viðarsdóttir skoraði annað mark Vals eftir fyrirgjöf af vængnum frá Hallberu sem hrökk á hana á 55. mínútu. Yfirveguð þarna Eyjastúlkan sem er ekki vön miklum átökum fyrir framan mark andstæðinganna. Guðrún Karítas kom Val í 3:0 á 81. mínútu þegar Elín Metta fann Fanndísi sem tók á rás að endalínu og setti boltann í lappirnar á henni fyrir framan markið. Svo var það Mist Edvards sem kom inn á sem varamaður og smurði boltann undir slána af 25 metra færi þegar um 2 mínútur voru eftir. Valur hafði yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og átti sigurinn fyllilega skilið. 

Valur fylgir því í humátt á eftir Breiðabliki en bæði lið eru með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

HK/Víkingur 0:4 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með verðskulduðum sigri 0-4.
mbl.is