Enn vinnur Stjarnan á heimavelli

Úr leik Stjörnunnar og Fylkis í Garðabænum í kvöld.
Úr leik Stjörnunnar og Fylkis í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan hefur unnið alla þrjá heimaleiki sína í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta og eru Stjörnukonur með níu stig. Stjarnan hafði betur gegn nýliðum Fylkis, 3:1. 

Fylkiskonur fengu tvö góð færi til að skora fyrsta markið í sömu sókninni á áttundu mínútu. Fyrst skaut Hulda Hrund Arnarsdóttir í stöng og svo varði Birta Guðlaugsdóttir frá Marija Radojicic sem tók frákastið.

Tíu mínútum síðar átti Þórdís Elva Ágústsdóttir hættulegt skot að marki Stjörnunnar en Birta varði aftur vel. Á 21. mínútu fékk Ída Marín Hermannsdóttir fínt færi eftir góðan undirbúning Stefaníu Ragnarsdóttur, en hún skaut beint á Birtu. 

Stjörnukonur fengu fá færi og reyndi ekki mikið á Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í markinu hjá Fylki. Gestirnir náðu hins vegar ekki að nýta sín færi og var staðan því markalaus í hálfleik. 

Stjörnukonur refsuðu Fylkiskonum í seinni hálfleik því á 58. mínútu skoraði mexíkóska landsliðskonan Renae Cuéllar sitt fyrsta mark fyrir Stjörnuna en hún kláraði vel, ein gegn Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í marki Fylkis. 

Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður hjá Stjörnunni á 73. mínútu og aðeins nokkrum sekúndum síðar skoraði hún annað mark liðsins. Hún fór þá illa með Margréti Evu Sigurðardóttur og lagði boltann í netið af stuttu færi. 

Jasmín Erla Ingadóttur bætti við þriðja marki Stjörnunnar sex mínútum fyrir leikslok er hún kláraði vel innan teigs, eftir að Cuéllar hitti ekki boltann í ágætu færi.

Fylkir minnkaði muninn skömmu fyrir leikslok er Sóley Guðmundsdóttir fékk boltann í sig eftir aukaspyrnu og í netið fór hann. Nær komst Fylkir hins vegar ekki og Stjarnan vann sinn þriðja sigur í sumar. 

Stjarnan 3:1 Fylkir opna loka
90. mín. Stefanía Ragnarsdóttir (Fylkir) á skot framhjá Af mjög löngu færi, nokkuð framhjá markinu. Tíminn er að renna út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert