Opinn fyrir því að spila næst á Íslandi

Frederik Schram var í 23 manna hópi Íslands á HM …
Frederik Schram var í 23 manna hópi Íslands á HM í Rússlandi í fyrra. mbl.is/Eggert

„Ég elska Ísland og kann afskaplega vel við mig á Íslandi svo að ég er alveg opinn fyrir því að flytja þangað,“ segir Frederik Schram sem ákveðið hefur að segja skilið við danska félagið Roskilde. Þessi 24 ára gamli markvörður, sem á að baki fimm A-landsleiki, segir metnað sinn fyrir íslenska landsliðinu hafa sitt að segja um val á næsta félagi.

„Síðustu átta mánuðir hér í Roskilde hafa verið mjög kaótískir. Það hefur mikið gengið á, þjálfarinn okkar verið rekinn og úrslitin verið misgóð. Ég held að núna sé tímabært fyrir mig að taka nýtt skref. Umboðsmaðurinn minn er kominn af stað í þeirri vinnu að skoða hvaða möguleiki sé bestur í stöðunni,“ segir Frederik í viðtali við mbl.is í dag. Hann á eftir að spila einn leik fyrir Roskilde áður en sumarfrí tekur við í dönsku 1. deildinni. Þar hefur Frederik varið mark Roskilde síðustu þrjú ár en hann vill taka skref upp á við:

„Ég vonast til þess. Þegar ég kom fyrst hingað voru bara æfingar síðdegis og frí um helgar, en þetta lagaðist og á þessari leiktíð höfum við nýtt tímann betur og æft líka á morgnana. Ég tel samt að til þess að bæta mig meira þurfi ég að komast í meira atvinnumannaumhverfi. Við erum með markmannsþjálfara hérna en hann er líka í öðru starfi og ég myndi vilja geta gengið að stærra þjálfarateymi og meiri og betri aðstöðu til þess að þróast og bæta minn leik,“ segir Frederik.

Hannes Þór Halldórsson og Frederik Schram kátir eftir jafnteflið við …
Hannes Þór Halldórsson og Frederik Schram kátir eftir jafnteflið við Argentínu á HM. mbl.is/Eggert

Íslensk félög hafa áður sett sig í samband við Frederik og ekki er loku fyrir það skotið að einhver þeirra freisti þess að fá þennan hávaxna markvörð í sínar raðir í sumar. Sjálfur er Frederik, sem alltaf hefur búið í Danmörku en á íslenska móður, opinn fyrir því:

„Ég hef ekki lokað neinum dyrum svo að auðvitað er það möguleiki í stöðunni. En við eigum enn einn leik eftir og ég vil einbeita mér að honum. Svo ætla ég í vikufrí til Grikklands með kærustunni minni og við sjáum svo til hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort einhver félög hafa samband. Ég elska Ísland og kann afskaplega vel við mig á Íslandi svo að ég er alveg opinn fyrir því að flytja þangað. Ég hef rætt við íslensk félög í gegnum tíðina en ekki að undanförnu. Við sjáum til hvað gerist í sumar. Það eru flest félög í öðrum deildum að klára sína leiktíð núna og í kjölfarið skýrast málin. Ég veit að það hefur verið áhugi frá félögum í Danmörku og einnig annars staðar í Evrópu, en við erum enn að skoða hvað myndi henta mér best,“ segir Frederik.

Landsliðið skiptir mig miklu máli

Frederik hefur ekki verið í aðallandsliðshópi Íslands eftir að Erik Hamrén tók við liðinu í fyrrahaust, en hann var í „B-landsliðinu“ í vináttulandsleik við Svíþjóð í janúar þegar hann lék sinn fimmta A-landsleik. Frederik á einnig að baki 12 leiki fyrir yngri landslið Íslands og vill ólmur vinna sér aftur sæti í landsliðshópnum. Sá vilji hefur sitt að segja í ákvörðun hans nú:

„Svo sannarlega. Það er áfram mjög stór hluti af mínum markmiðum að vera í íslenska landsliðshópnum. Ég var í hópnum sem fór á HM í Rússlandi og finnst ég hafa meira að sýna. Landsliðið er eitt af því sem ég hef í huga þegar ég vel mér næsta félag, það skiptir mig miklu máli og ég er alltaf mjög stoltur af því að vera valinn í landsliðið. Ég er enn bara 24 ára gamall og hef mikinn metnað fyrir því að vera í landsliðshópnum.“

mbl.is