Mál Björgvins fyrir aganefnd

Björgvin Stefánsson gæti verið á leið í langt bann.
Björgvin Stefánsson gæti verið á leið í langt bann. mbl.is/Hari

Björgvin Stefánsson, framherji KR, gæti átt yfir höfði sér að minnsta kosti fimm leikja keppnisbann vegna ummæla sinna í lýsingu á leik Hauka og Þróttar R. í 1. deild karla í fótbolta í gærkvöld.

Björgvin var annar tveggja lýsenda leiksins á Youtube-rás Hauka en hann er fyrrverandi leikmaður liðsins. „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villi­mann­seðlið hjá svarta mann­in­um,“ sagði Björgvin í lýsingunni eftir atvik sem endaði með því að Archange Nkumu, þeldökkur leikmaður Þróttar, fékk gult spjald. Björgvin baðst strax í kjölfar leiksins afsökunar á „heimskulegum ummælum“ sínum.

Mál Björgvins er komið inn á borð aga- og úrskurðarnefndar KSÍ en þangað vísaði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, því. Þetta staðfesti Klara við RÚV í dag.

Í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál er að finna sérstaka grein um mismunun. Þar segir meðal annars:

Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000.

Klara vildi hins vegar ekkert tjá sig um mögulega refsingu Björgvins og sagði málið í höndum aganefndar. Búast má við því að nefndin taki málið fyrir á næsta fundi sínum á þriðjudag. Áður en til hans kemur mun KR mæta Víkingi R. í Víkinni annað kvöld kl. 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert