Martin og Valur semja um starfslok

Gary Martin var kynntur sem nýr leikmaður Vals í janúar.
Gary Martin var kynntur sem nýr leikmaður Vals í janúar. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Gary Martin og knattspyrnufélagið Valur hafa komist að samkomulagi um starfslok enska framherjans sem gekk í raðir Vals í vetur og skrifaði undir samning til þriggja ára.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Vals en Martin hefur ekki verið í leikmannahópi Vals í síðustu leikjum og ekki fengið að taka þátt í æfingum liðsins. Í yfirlýsingu segir að báðir aðilar séu sáttir með málalok og þetta er haft eftir Martin:

„Ég kveð þennan leikmannahóp og þetta félag með söknuði. Þetta er stór klúbbur eins og árangur undanfarinna ára sýnir. Gagnvart mér var staðið við allt og auk þess var öll aðstaða og búnaður fyrsta flokks. Það er bara stundum þannig að menn eiga ekki skap saman. Þannig var það með okkur Óla [Ólaf Jóhannesson]. Og þá þarf að taka á því. Það erum við að gera með því að semja um starfslok þannig að ég geti spilað þar sem óskað er eftir kröftum mínum. Ég vona að félaginu gangi allt í haginn.“

Ólafur Jóhannesson þjálfari segir: „Við erum ólíkir karakterar og með svolítið ólíkar áherslur og því varð að samkomulagi að slíta samningi aðila með samkomulagi. Gary er góður drengur og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni.“

Gary Martin lék þrjá deildarleiki fyrir Val og skoraði í þeim tvö mörk. Þessi 28 ára gamli leikmaður hefur einnig leikið með Víkingi R., KR og ÍA á Íslandi.

mbl.is