Takturinn og trúin er að aukast

Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Sjötta umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu verður spiluð um helgina en að flestra mati hefur deildin farið vel af stað og nýliðar Skagamanna tróna einir á toppnum.

Það eru margir áhugaverðir leikir í sjöttu umferðinni og einn þeirra er viðureign Íslandsmeistara Vals og Breiðabliks, sem eigast við á Origo-velli þeirra Valsmanna á sunnudagskvöld. Valsmenn hafa farið afar illa af stað í titilvörninni en þeir hafa aðeins unnið einn af fimm leikjum sínum og eru í 9. sæti deildarinnar með 4 stig. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í vikunni er þetta versta byrjun ríkjandi meistara í 17 ár.

Blikarnir, sem töpuðu sínum fyrsta leik gegn ÍA um síðustu helgi, eru í 2.-3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Skagamönnum.

Vonandi tökum við tvö skref áfram

Mbl.is sló á þráðinn til Hannesar Þórs Halldórssonar, markvarðar Vals og íslenska landsliðsins, og spurði hann út í slaginn gegn Breiðabliki.

„Við reynum að fara í þennan leik eins og hvern annan leik. Þegar við erum komnir svona langt á eftir toppliðunum fækkar auðvitað tækifærunum til að ná markmiðunum í sumar og við gerum okkur alveg grein fyrir mikilvægi þessa leiks,“ sagði Hannes Þór.

Valsmenn léku líklega sinn besta leik á tímabilinu á mánudagskvöldið en það dugði þó skammt því meistararnir töpuðu fyrir FH í Kaplakrika 3:2.

„Það er bjartara yfir ef maður lítur til spilamennskunnar. Takturinn og trúin er að aukast en það var eins svekkjandi og það gerist að fá ekki eitthvað út úr þessum leik á móti FH. Stundum þarf maður að eiga við svekkjelsi í þessum fótbolta en þá er bara að horfa á það jákvæða. Frammistaðan á móti FH var fín og vonandi náum við að taka það með okkur inn í leikinn á móti Breiðabliki. Blikarnir eru góðir og hafa farið bara vel af stað. Þeir þurfa stig eins og við og þetta verður erfiður leikur. Við erum vel stemmdir þótt við höfum tekið eitt skref aftur á bak í Krikanum. Vonandi tökum við tvö skref áfram á sunnudaginn,“ sagði Hannes Þór.

Gary Martin hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Val.
Gary Martin hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir Val. mbl.is/Ómar Óskarsson

Valsmenn verða án fyrirliðans Hauks Páls Sigurðssonar sem tekur út leikbann en mögulegt er að Daninn Lasse Petry verði klár í slaginn en hann missti af leiknum á móti FH vegna meiðsla. Gary Martin var eins og flestir vita settur út í kuldann af Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, og samkvæmt heimildum mbl.is hefur Englendingurinn ekkert mætt á æfingar Valsliðsins frá því Ólafur tilkynnti honum að hann mætti finna sér nýtt lið.

Spurður hvort mál Gary Martin hafi eitthvað verið að trufla leikmannahópinn, sagði Hannes Þór:

„Nei, það finnst mér ekki. Auðvitað er þetta rætt eins og annars staðar. Þetta er þarna en síðan þetta mál kom upp höfum við unnið einn leik og spilað fínan leik á móti FH. Þetta hefur því ekki haft nein áhrif og ég held að það muni ekki gera það,“ sagði Hannes.

Leikirnir í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar:

Laugardagur:
16.00 HK - Grindavík
16.30 KA - ÍBV
18.00 Víkingur - KR

Sunnudagur:
17.00 ÍA - Stjarnan
19.15 Fylkir - FH
19.15 Valur - Breiðablik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert