„Ég finn pínu til með áhorfendum“

Gunnar Þorsteinsson með boltann í dag.
Gunnar Þorsteinsson með boltann í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var óttalegur barningur og fátt um fína drætti,“ segir Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur við mbl.is, eftir markalaust jafntefli HK og Grindavíkur í 6. umferð Pepsi-Max deildar karla í knattspyrnu í Kórnum í dag.

Grindavík er eftir leikinn í sjötta sæti deildarinnar með níu stig og hefur ekki tapað deildarleik frá fyrstu umferðinni.

„Liðin voru augljóslega bæði dálítið lemstruð eftir mikið leikjaálag að undanförnu,“ segir Gunnar. Hann bendir á að Grindavík sé með lítinn hóp og svo sé ekki ástæða til að breyta liðinu þegar vel gengur.

„Ég finn pínu til með áhorfendum því þetta var ekki mjög áhorfendavænn leikur. Við erum bara í þessu til að safna stigum og standa okkur. Það er styrkleikamerki þegar lið er ekki að spila vel en nær samt að halda hreinu,“ segir Gunnar.

Fyrirliðinn segir að Grindvíkingar leggi mikla áherslu á að halda hreinu og byggi sinn leik út frá varnarleiknum. „Þá ertu alltaf með stigið. Sóknarlega varð ég fyrir smá vonbrigðum með okkur en við nýttum okkur ekki veikleika þeirra og tókst ekkert að opna þá.“

Gunnar hrósar HK og segir nýliðana þétta og það sé erfitt að koma og spila í Kórnum. En hvernig fannst honum að koma á sumardegi og spila deildarleik inni?

„Mér finnst geggjað að koma hingað. Völlurinn er vökvaður, umgjörðin er mjög flott og það er ekkert út á það að setja. Þetta er bara spurning um viðhorf eins og með allt annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert