KA vann ÍBV í 85 mínútna knattspyrnuleik

KA-menn fagna marki Daníels Hafseinssonar í dag.
KA-menn fagna marki Daníels Hafseinssonar í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og ÍBV mættust í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu karla í dag. Leikið var á Akureyrarvelli sem nú nefnist Greifavöllurinn. Eftir afar daufan leik tóku KA-menn góðan lokakafla og unnu þeir leikinn 2:0. KA steig upp í fimmta sæti deildarinnar en Eyjamenn eru njörfaðir niður í botnsætið.

Hápunktur fyrri hálfleiks var ekki eitthvað sem leikmenn töfruðu fram úr takkaskónum. Dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson meiddist snemma leiks og tafðist leikurinn um níu mínútur á meðan gert var að meiðslum hans. Aðstoðardómarinn, Gylfi Már Sigurðsson, tók við og stóð sig vel fram að hálfleik. Uppbótatíminn var að vísu bara fjórar mínútur og má því segja að í dag hafi einn stysti leikur í efstu deild verið spilaður. Sigurður Þrastarson tók svo við dómgæslunni í seinni hálfleik.

KA lék með norðankalda í bakið í fyrri hálfleik og var mun meira með boltann og meira að sækja. Eina dauðafæri hálfleiksins var hins vegar gestanna í ÍBV. Jonathan Glenn komst þá í gegnum vörn KA eftir samspil við Guðmund Magnússon. Jonathan hafði nægan tíma en afgreiðsla hans fór vel framhjá.

Síðari hálfleikur var með daufara móti lengi vel eða allt þar til KA skoraði loks mark. Þá fór allt í gang og KA skoraði strax aftur. Mörkin komu á 76. og 80. mínútu, bæði eftir einkar laglegt spil heimamanna. Daníel Hafsteinsson skoraði fyrra markið og lagði svo upp á Nökkva Þey Þórisson sem var nýkominn inná. Nokkru síðar brenndi Hallgrímur Mar Steingrímsson af vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Nökkvi Þeyr var tekinn niður í teignum.

Fleira markvert gerðist ekki og KA gat fagnað góðum sigri.

KA 2:0 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið KA klárar leikinn með góðum endaspretti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert