Stigasöfnun Skagamanna heldur áfram

Frá leiknum á Akranesi í kvöld.
Frá leiknum á Akranesi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Skagamenn unnu 2:0 seiglusigur á Stjörnunni á Norðurálsvellinum á Akranesi í fyrsta leik kvöldins í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Mörk leiksins komu bæði í síðari hálfleik og voru það þeir Einar Logi Einarsson og Steinar Þorsteinsson sem skoruðu mörk Skagamanna.

Fyrri hálfleikur leiksins var fremur bragðlaus. Besta færið kom sennilega á fyrstu mínútu leiksins, er Guðjón Baldvinsson náði skoti á markið eftir fyrirgjöf frá hægri. Skot hans olli Árna Snæ í marki Skagamanna þó litlum vandræðum.

Skagamenn sendu mikið af háum boltum fram völlinn, en sendingarnar voru oft ívíð of langar og fuku með vindinum beint aftur fyrir endamörk Stjörnumanna. Heilt yfir var fyrri hálfleikurinn lítið fyrir augað og hvorugt liðið var nálægt því að skora.

Bjarki Steinn Bjarkason fór meiddur af velli á 27. mínútu leiksins og inn á í hans stað kom Steinar Þorsteinsson á vinstri vænginn. Steinar átti eftir að spila stóran þátt í sigri heimamanna.

Leikurinn var áfram jafn í upphafi síðari hálfleiks, en á 54. mínútu komust heimamenn yfir. Þá áttu þeir innkast á vinstri vængnum og tóku það stutt. Steinar fékk boltann og átti góða fyrirgjöf á miðvörðinn Einar Loga Einarsson, sem stýrði boltanum í fjærhornið framhjá Haraldi Björnssyni í marki Stjörnunnar.

Jafnvægi komst á leikinn eftir það, en Skagamenn voru ívíð áræðnari í sínum sóknaraðgerðum og átti Tryggvi Hrafn Haraldsson marga spretti þar sem hann sýndi góða takta án þess að ná að koma sér í opið marktækifæri.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, en tilraunir þeirra voru fremur máttlausar. Það var svo í uppbótartíma leiksins sem Skagamenn gulltryggðu sigurinn. Þá áttu þeir aukaspyrnu á vinstri vængnum, og í stað þess að taka hana stutt og eyða tíma var boltinn settur inn á teiginn. Þar voru heimamenn ákveðnari, unnu fyrsta boltann á fjærstönginni og varamaðurinn Steinar, sem lagði upp fyrra markið, renndi sér á boltann á nærstönginni og skoraði af stuttu færi í kjölfarið.

2:0 lokatölur á Akranesi og Skagamenn eru á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 6 leiki, frábær byrjun hjá lærisveinum Jóhannesar Karls Guðjónssonar.

ÍA 2:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is