Þungt yfir mönnum

Hannes Þór Halldórsson átti mjög góðan leik í marki Valsmanna …
Hannes Þór Halldórsson átti mjög góðan leik í marki Valsmanna í dag en það dugði ekki til. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Maður er hálf tómur eftir þennan leik og veit satt best að segja ekki alveg hvað maður á að segja,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap liðsins gegn Breiðabliki í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þegar að maður er í þeirri stöðu sem við erum í er alltaf verið að reyna finna einhverjar lausnir og vikan er tekin í það að finna svör og koma sér aftur upp á lappirnar eftir niðurdúr og það er alltaf vond tilfinning þegar það skilar sér ekki. Við vorum lamdir niður á jörðina í dag og það er engum öðrum að kenna en okkur sjálfum. Það er þungt yfir mönnum en við þurfum að reyna finna einhver tæki og tól til þess að vera klárir í næsta leik.“

Hannes átti frábæran leik í marki Valsmanna í dag og varði oft á tíðum meistaralega en því miður fyrir landsliðsmarkmanninn skilaði það engum stigum í hús.

„Maður veit aldrei hvernig leikirnir spilast fyrir mann þegar að maður er markmaður og stundum er það þannig að maður nær að verja einhverja bolta og auðvitað vonast maður til þess að það skili einhverju en það gerðist ekki í dag sem gerir þetta ennþá meira svekkjandi.“

Hannes segir að liðið hafi undirbúið sig vel fyrir leikinn í kvöld en þegar á hólminn var komið hafi Blikarnir einfaldlega keyrt yfir Valsmenn.

„Það var fínn taktur í undirbúningnum fyrir leik og ég hafði mikla trú á því að við myndum sýna góða frammistöðu í dag. Það var ákveðin ólga í okkur eftir FH leikinn og við ætluðum að sýna okkar rétta andlit í dag. Svo byrjar leikurinn og þá eru Blikarnir miklu betri en við og það er eitthvað sem við þurfum að skoða alvarlega því þeir einfaldlega keyra yfir okkur,“ sagði Hannes Þór í samtali við mbl.is

mbl.is