Blikar sendu granna sína úr bikarnum

Markaskorarinn Kwame Quee með boltann fyrir Blika í kvöld en …
Markaskorarinn Kwame Quee með boltann fyrir Blika í kvöld en Ásgeir Börkur Ásgeirsson í liði HK sækir að honum. mbl.is/Hari

Breiðablik er komið áfram í átta liða úrslit í bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, eftir sigur á HK í grannaslag í sólinni á Kópavogsvelli í kvöld. Lokatölur urðu 3:1 fyrir Breiðablik, silfurlið keppninnar frá því í fyrra.

Leikurinn hefði ekki getað byrjað betur fyrir Blika, en Kwame Quee kom þeim yfir strax á þriðju mínútu leiksins. Hann stangaði þá fyrirgjöf Höskuldar Gunnlaugssonar í hornið, hans fyrsta mark fyrir Breiðablik í fyrsta byrjunarliðsleiknum.

Blikar réðu ferðinni eftir markið en sköpuðu ekki mörg hættuleg færi. HK fékk ekki mörg færi en þó eitt dauðafæri þegar Brynjar Jónasson slapp einn í gegn eftir varnarmistök, en Gunnleifur Gunnleifsson sá við honum. Staðan 1:0 fyrir Breiðablik í hálfleik.

Á 52. mínútu kom annað mark Blika, en það skoraði Guðjón Pétur Lýðsson með þrumuskoti utan teigs sem fór af varnarmanni og þaðan óverjandi í netið. Staðan orðin 2:0 og útlitið svart fyrir HK-inga, sem voru nokkuð slegnir eftir þetta og Blikar nýttu sér það.

Á 59. mínútu skoraði Höskuldur þriðja markið þegar hann fylgdi eftir skoti Kolbeins Þórðarsonar, en Brynjólfur Darri Willumsson hafði þá prjónað sig laglega inn á teiginn og komið boltanum á Kolbein. Staðan orðin 3:0 fyrir Blika.

HK-ingar náðu að svara fyrir sig rúmum 20 mínútum fyrir leikslok, en Björn Berg Bryde skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu Ásgeirs Marteinssonar. Staðan 3:1 og HK-ingar vöknuðu aftur til lífsins í kjölfarið.

Gestirnir sóttu mikið eftir að hafa minnkað muninn en voru þó aldrei líklegir til þess að ógna forskoti Blika að neinu ráði. Breiðablik sigldi því 3:1-sigrinum heim og er komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar.

Auk Breiðabliks verða úrvalsdeildarlið FH, Fylkis, Grindavíkur, ÍBV, KR og Víkings R., auk 1. deildarliðs Njarðvíkur, í hattinum þegar dregið verður í átta liða úrslit keppninnar.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma inn á vefinn hér síðar í kvöld.

Breiðablik 3:1 HK opna loka
90. mín. HK-ingar pressa mikið núna, en Blikar hafa náð að standa það af sér. Það verða þó að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma, svo það er enn tími fyrir dramatík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert