Ekki annað í boði en að fara vinna leiki

Atli Hrafn Andrason.
Atli Hrafn Andrason. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingar bíða enn eftir sínum fyrsta deildarsigri á Íslandsmótinu í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli gegn Grindavík í 7. umferð Pepsi Max-deildarinnar í dag.

Víkingar voru mikið með boltann og sköpuðu sér nokkur færi en tókst þó ekki að skora. Sóknarmaðurinn Atli Hrafn Andrason segir liðið þurfa að fara klára færin sín ætli það sér að safna stigum í sumar. „Við stjórnum oftast leikjum en náum ekki að klára hlutina á síðasta þriðjungi. Við fengum hörku færi hér í dag, bæði ég sjálfur og Nikolaj. Næsta skref er að fara klára þessi færi.“

„Við erum betri á gervigrasi og grasið hér var þurrt í byrjun leiks en það er ekki hægt að kvarta yfir því. Við þurfum að finna lausn á hlutunum þegar við getum ekki spilað boltanum almennilega á milli okkar,“ bætti hann við í samtali við mbl.is eftir leik og tók undir með blaðamanni að Víkingar verða að fara safna fleiri stigum.

„Við erum í stigasöfnun í þessari deild og það er ekki annað í boði en að stíga upp og fara skora mörk og vinna þessa leiki. Við fengum fín færi í dag og áttum bara að klára þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert