Tíu Víkingar sóttu stig til Grindavíkur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjöunda umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu hófst í dag er Grindvíkingar tóku á móti Víkingum á Mustad-vellinum. Leiknum lauk með markalausu jafntefli, 0:0, þar sem Víkingar spiluðu síðustu mínúturnar manni færri. Víkingar bíða því enn eftir fyrsta sigrinum sínum í deildinni og eru í fallsæti. Grindvíkingar hafa gert fjögur jafntefli í síðustu sex leikjum sínum.

Liðin fengu hvort sitt færið í fyrri hálfleik, Nikolaj Hansen hefði hugsanlega átt að koma gestunum úr Fossvoginum í forystu þegar hann skallaði rétt fram hjá markinu, einn og óvaldaður af stuttu færi. Aron Jóhannsson fékk svo álitlegt færi til að koma heimamönnum yfir skömmu fyrir hlé þegar hann var einn gegn Þórði Ingasyni í marki Víkinga. Þórður var snöggur út úr markinu og varði skot Arons sem var óhræddur við að láta vaða í leiknum.

Mörg skot hans voru þó tekin utan teigs og almennt gekk báðum liðum illa að reyna almennilega á markverðina. Alexander Veigar Þórarinsson fékk dauðafæri snemma í síðari hálfleik þegar hann skallaði fram hjá inn í markteig. Þetta var nokkuð prúðmannlega leikinn leikur lengst af en á síðustu tíu mínútunum færðist hiti í leikinn. Fjögur gul spjöld fóru á loft undir lokin og eitt rautt er Gunnlaugur Fannar Guðmundsson var rekinn af velli í liði Víkinga með sitt annað gula spjald þegar hann braut á Sigurði Bjarti Hallssyni rétt utan teigs.

Manni fleiri síðustu mínúturnar voru það Grindvíkingar sem reyndu hvað þeir gátu til að kreista fram sigurmarkið. Aron Jóhannsson fékk gott færi innan teigs eftir laglegan undirbúning Alexanders en Víkingar stóðu vörnina vel sem fyrr og máttu liðin því að lokum sættast hvort á sitt stigið.

Grindavík 0:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Aron Jóhannsson (Grindavík) á skot sem er varið Alexander dansar með boltann við markteig og sendir svo þvert fyrir markið, þar nær Aron góðu skoti en Víkingar fleygja sér fyrir markið og bjarga á ögurstundu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert