Stjarnan sendi Valsmenn á botninn

Valsmenn fagna eftir að Ólafur Karl Finsen kom þeim yfir.
Valsmenn fagna eftir að Ólafur Karl Finsen kom þeim yfir. mbl.is/Hari

Guðmundur Steinn Hafsteinsson reyndist hetja Stjörnumanna þegar liðið fékk Val í heimsókn í 7. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Samsung-völlinn í Garðabænum í kvöld. Leiknum lauk með 2:1-sigri Stjörnunnar en Guðmundur skoraði sigurmark leiksins á 90. mínútu.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og Sindri Björnsson komst í fínt færi strax á 4. mínútu þegar hann átti fast skot úr teignum en Haraldur í marki Stjörnunnar varði vel frá honum. Stjörnumenn unnu sig rólega inn í leikinn og áttu tvær góðar tilraunir á 11. og 15. mínútu en í bæði skiptin fór boltinn rétt fram hjá markinu. Guðjón Baldvinsson slapp einn í gegn á 23. mínútu en hann var of lengi að ákveða sig og endaði á því að hlaupa með boltann aftur fyrir endamörk. Ólafur Karl Finsen kom Valsmönnum yfir á 33. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Garðbæinga. Eiður Aron Sigurbjörnsson hreinsaði frá marki, Martin Rauschenberg sendi boltann til baka á Harald í marki Stjörnunnar en Daninn hitti boltann illa. Haraldur rann í markinu og Ólafur Karl komst inn í sendinguna, labbaði fram hjá Haraldi og setti boltann í tómt markið. Stjörnumenn héldu áfram að skjóta á markið eftir þetta og Hilmar Árni átti frábært skot á 41. mínútu úr teignum en boltinn fór rétt fram hjá markinu og staðan 1:0 í hálfleik.

Garðbæingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og strax á 48. mínútu komst Brynjar Gauti í flott færi eftir fyrirgjöf frá hægri en Hannes varði vel frá honum. Guðjón Baldvinsson fékk annað gott tækifæri til þess að jafna metin fyrir Stjörnuna þegar Þórarinn Ingi sendi hann í gegn en Hannes kom út á móti og varði frá honum í horn. Þorri Geir Rúnarsson jafnaði metin fyrir Stjörnumenn á 64. mínútu af stuttu færi út teignum. Eyjólfur Héðinsson átti þá skot í stöng, rétt fyrir utan teig, boltinn hrökk til Þorra í teignum sem setti hann í opið markið í slána og inn. Stjörnumenn voru líklegri eftir þetta og Guðjón Baldvinsson fékk frábært færi til þess að klára leikinn fyrir Garðbæinga þegar Sölvi Snær sendi boltann fyrir markið en skot Guðjóns af stuttu færi fór rétt fram hjá markinu.

Það virtist allt stefna í jafntefli í Garðabænum en á 90. mínútu átti Sölvi Snær Guðbjargarson frábæra sendingu fyrir markið frá hægri á Guðmund Stein Hafsteinsson sem klippti boltann af stuttu færi yfir Hannes í markinu og það reyndist sigurmark leiksins. Stjarnan fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 11 stig en Íslandsmeistarar Vals sitja í neðsta sætinu með 4 stig eftir fyrstu sjö umferðirnar.

Stjarnan 2:1 Valur opna loka
90. mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson (Stjarnan) skorar 2:1 - STJARNAN KEMST YFIR! Sölvi Snær með magnaða sendingu fyrir markið á Guðmund Stein sem að klippir boltann í netið og yfir Hannes í marki Valsmanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert