„Ég þarf smá tíma“

Kolbeinn Sigþórsson í Laugardalnum í dag.
Kolbeinn Sigþórsson í Laugardalnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson segist þurfa að fá tíma til að koma sínum knattspyrnuferli af stað á nýjan leik. Hann segir að hjá AIK sé honum sýnd þolinmæði sem sé mikilvægt á þessum tímapunkti. 

Mbl.is tók Kolbein tali fyrir landsliðsæfingu í Laugardalnum í morgun og hljóðið í miðherjanum var gott en hann gekk til liðs við AIK í Svíþjóð í apríl. 

„Ég kann bara mjög vel við mig í Svíþjóð. Mér líður vel þar enda er það góður staður að vera á. Nú er útlit fyrir að mér takist að koma mér af stað þarna. Margir leikir eru fram undan og þetta er gott skref fyrir mig að fara til AIK til að koma ferlinum af stað aftur.“

Finnur Kolbeinn fyrir því að væntingar séu gerðar til hans í Svíþjóð í ljósi þess að hann hefur spilað fyrir stór félög eins og Ajax, Galatasaray og Nantes? 

„Já auðvitað. Búist er við miklu af mér en Svíarnir skilja að ég þarf smá tíma til að komast í mitt besta form. Þeir eru að reyna að byggja mig upp aftur sem gengur vel þrátt fyrir bakslag fyrir þremur vikum síðan. Nú er ég orðinn heill aftur og þarf þá að taka næstu skref fram á við,“ sagði Kolbeinn en um tognun aftan í læri var að ræða og var búist við því að hann yrði frá í tvær vikur sem urðu þrjár að hans sögn. 

Svíarnir sýna honum þá þolinmæði sem nauðsynleg er fyrir leikmann í hans stöðu.„Já. Þetta er ástæðan fyrir því að ég fór til Svíþjóðar. Ég þarf tíma til að ná mér og verð að vera þolinmóður. Þeir skilja mína stöðu og hvað ég hef gengið í gegnum varðandi meiðsli,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert