Líklegt að Kári spili með Víkingi

Kári Árnason í Laugardalnum í dag.
Kári Árnason í Laugardalnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason, segist ætla að funda með forráðamönnum Víkings að landsleikjunum loknum gegn Albaníu og Tyrklandi. Hann telur líklegt að hann verði með uppeldisfélaginu síðari hluta Íslandsmótsins. 

„Já það er planið en nú er ég að einbeita mér að lansleikjunum. Ég hef alveg talað við Víkingana en við ákváðum ég myndi einbeita mér að landsliðinu og fara yfir málin þegar landsleikirnir eru afstaðnir,“ sagði Kári sem hefur búið erlendis í tæpa tvo áratugi. 

Nýtt félagaskiptatímabil byrjar hinn 1. júlí og þá gæti Kári orðið löglegur með Víkingi verði það niðurstaðan að hann gangi til liðs við uppeldisfélagið. 

„Ég hef búið úti í átján ár og finnst alveg kominn tími á að prófa eitthvað annað og lifa kannski eðlilegu lífi. Mér býðst að vera áfram úti en ég er spenntari fyrir því að koma heim í Víking.“

Kári segist vera vel á sig kominn líkamlega þrátt fyrir langt keppnistímabil og enginn meiðsli að stríða honum um þessar mundir. Hann er nokkuð bjartsýnn fyrir landsleikina. 

„Mér líst ágætlega á þetta. Leikirnir eru mjög mikilvægir og ef við vinnum þá báða þá erum við í mjög góðri stöðu fyrir komandi átök,“ sagði Kára Árnason í samtali við mbl.is en hann lék í Tyrklandi á nýafstöðnu keppnistímabili. 

Kári Árnason og Olivier Giroud.
Kári Árnason og Olivier Giroud. AFP
mbl.is