Rúnar mun skipta um lið í júní

Rúnar Már Sigurjónsson og Layvin Kurzawa
Rúnar Már Sigurjónsson og Layvin Kurzawa AFP

Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið frá Sviss þar sem hann hefur leikið undanfarin ár og segist vera opinn fyrir öðru og frábrugðnara umhverfi en hann hefur vanist. Meira gefur hann þó ekki upp en segist búast við því að málin skýrist þegar líður á júní. 

„Ég er samningslaus og er að skipta um lið. Ég verð ekki áfram í Sviss vegna þess að mér finnst vera kominn tími á að prófa eitthvað nýtt eftir þrjú ár þar. Ég vildi bíða með að ganga frá þessum málum þar til eftir landsliðsverkefnið og þá get ég einbeitt mér að þessum mikilvægu leikjum,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is á landsliðsæfingu í dag en framundan eru leikir gegn Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM. 

„Samkvæmt reglunum hef ég getað samið við nýtt félag síðan í janúar. Ýmislegt hefur verið í gangi en svo hægðist á þar sem ég hef verið mikið meiddur. Þau lið sem hafa sýnt áhuga vildu sjá hvort ég næði mér og færi að spila aftur. Ég náði að spila síðustu leikina með Grasshopper og kem í góðu líkamlegu ásigkomulagi inn í landsliðsverkefnið. Vonandi mun ég ganga frá mínum málum sem fyrst eftir landsleikina.“

Rúnar virðist vera opinn fyrir ýmsum möguleikum þótt það bíði enn um sinn að spila aftur með uppeldisfélaginu Tindastóli. 

„Ég er opinn fyrir því að prófa eitthvað algerlega nýtt. Ég var í þrjú ár í Svíþjóð og hef nú verið þrjú ár í Sviss. Þessi lönd eru ekki svo ólík Íslandi að því leyti að kerfið er gott og lífsgæðin góð. Vonandi tekst mér að upplifa eitthvað nýtt. Ég verð að viðurkenna að það mun frestast að spila með Tindastóli. Ég veit svo sem ekki hvort ég spili á Íslandi þegar atvinnumannaferlinum lýkur erlendis en vonandi verða Stólarnir búnir að koma sér aðeins ofar svo það komi til greina. En maður á aldrei að segja aldrei í fótboltanum,“ sagði Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert