Gerum allt til að upplifa fleiri stórmót

Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við blaðamann Morgunblaðsins á Laugardalsvelli.
Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við blaðamann Morgunblaðsins á Laugardalsvelli. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrir ári var Gylfi Þór Sigurðsson ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem var handan við hornið í Rússlandi. Svipað var uppi á teningnum fyrir þremur árum í aðdraganda Evrópumótsins í Frakklandi 2016. Nú eftir slétt ár getur landsliðið svo verið að undirbúa sig fyrir Evrópumótið 2020, en til þess þarf liðið að komast áfram í undankeppninni. Framundan eru tveir heimaleikir á Laugardalsvelli, við Albaníu á laugardag og Tyrkland á þriðjudag, sem geta ráðið miklu um hvað möguleika Íslands varðar um að komast á þriðja stórmótið í röð.

„Ef við náum í tvenn góð úrslit í þessum leikjum er allt mögulegt, en síðan ef þetta fer á hinn veginn er þetta strax orðið mjög erfitt,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson þegar hann ræðir við Morgunblaðið fyrir æfingu landsliðsins á sólríkum Laugardalsvelli í gær. Hann segir að það að hafa þegar komist á tvö stórmót, bæði EM og HM, geri leikmenn enn hungraðri að vilja komast á EM á ný, þvert á það sem sumir hafa haldið fram.

„Einhverjir halda að vegna þess að við höfum farið á stórmót áður þá sé ekki jafn mikill metnaður að komast þangað aftur, en eftir að hafa upplifað svona lagað þá viltu gera það aftur og það er mun sterkari tilfinning. Fyrir mig persónulega eru þessi stórmót það skemmtilegasta sem ég hef gert á mínum ferli. Upplifunin og stemningin að vera á stórmótum er einstök og við allir sem vorum þar, og strákarnir sem hafa ekki upplifað þetta áður, erum staðráðnir í að gera allt sem við getum til þess að komast á annað stórmót,“ segir Gylfi, en veit að leiðin þangað er síður en svo greið.

Ítarlegt viðtal við Gylfa Þór Sigurðsson má finna á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert