Óttast íslensku liðsheildina

Edoardo Reja, landsliðsþjálfari Albaníu, á fréttamannafundi í dag.
Edoardo Reja, landsliðsþjálfari Albaníu, á fréttamannafundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edoardo Reja, landsliðsþjálfari Albaníu, segist ekki hafa haft mikinn tíma til þess að kynna sér íslenska landsliðið í þaula fyrir landsleik þjóðanna í undankeppni EM sem fram fer á Laugardalsvelli á morgun. Hann hafi hins vegar heyrt mikið um íslensku liðsheildina.

Þetta er meðal þess sem kom fram á fréttamannafundi Albaníu á Laugardalsvelli nú í hádeginu.

Reja er 73 ára gamall Ítali og er að fara að stýra sínum fyrsta leik, en hann tók við Albaníu seinni hluta aprílmánaðar. Fyrrum landsliðsþjálfari, Christian Panucci, var rekinn eftir 2:0 tap fyrir Tyrkjum í fyrsta leik undankeppninnar. Reja segist þekkja Gylfa Þór Sigurðsson best í íslenska liðinu, hann sé ekki aðeins sterkur leikmaður heldur einnig tæknilega góður.

Það sem Reja óttast mest við íslenska liðið eru föst leikatriði, einnig sé íslenska liðið sé mjög skipulagt með háloftaboltum sínum. Hann viti að Íslendingar eru sterkir í loftinu, en að íslenska liðið sé jafnframt með veikleika sem Albanía mun reyna að finna. Stefnan sé sett á að fara heim með öll þrjú stigin.

Síðan Reja tók við hefur hann reynt að koma inn leikskipulagi sem snýst um að halda boltanum og sækja. Hann sagði það hafa vantað upp á sjálfstraustið í liði Albaníu, sérstaklega þegar komið er fram að vítateig andstæðinganna. Hann leggi höfuðáherslu á að liðið klári sóknir sínar og það sé ekki í hans hugmyndafræði að liggja í vörn heldur sé alltaf hans markmið að vinna.

Reja sagði að leikskipulagið á morgun muni byggjast á því að halda boltanum innan liðsins og sækja sem lið frá öftustu mönnum. Höfuðáhersla verður lögð á að koma í veg fyrir að íslenska liðið geti sent háa bolta innfyrir vörnina, hann viti að leikmenn Íslands séu sterkir og því þurfi að mæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert