Verja áhorfendur fyrir fugladriti í Laugardal

Íslenskir stuðningsmenn á Laugardalsvelli.
Íslenskir stuðningsmenn á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Óvenjulegar framkvæmdir hafa verið í gangi á Laugardalsvelli í vikunni í aðdraganda landsleiks Íslands og Albaníu í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu, en þjóðirnar mætast klukkan 13 á morgun.

Hrafnapar er búið að koma sér upp laup í rjáfrinu á stúkunni á Laugardalsvelli. Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist, en venjulega hafa starfsmenn KSÍ náð að flytja hrafnslaupinn á vorin. Nú voru hins vegar komnir ungar í hreiðrið þegar átti að flytja og því var ákveðið að hreyfa ekki við því.

Þar sem búist er við þúsundum áhorfenda og miklum hávaða á leiknum á morgun, og gegn Tyrkjum á þriðjudag, var þess í stað brugðið á það ráð að strengja nokkurs konar tjald undir laupinn. Er það gert til þess að afstýra því að hrafnarnir driti á áhorfendur fyrir neðan, sem búist er við að gerist þegar hávaðinn fer að magnast á vellinum.

Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, hefur fylgst með aðgerðum og tók þessa mynd í dag af tjaldinu sem búið er að strengja undir hrafnslaupinn. Búast má við því að eitthvað muni heyrast í hröfnunum, en áhorfendur geti farið nokkuð hreinir heim af vellinum þrátt fyrir að sitja undir hreiðrinu.

Hér má sjá tjaldið sem búið er að strengja undir ...
Hér má sjá tjaldið sem búið er að strengja undir hrafnslaupinn í rjáfrinu á stúku Laugardalsvallar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is