Perla Jóhanns í mikilvægum sigri

Ísland vann afar mikilvægan 1:0-sigur á Albaníu í dag í þriðju umferð undankeppni EM karla í knattspyrnu, á Laugardalsvelli.

Jóhann Berg Guðmundsson skoraði markið mikilvæga sem skildi liðin að, nánast upp á eigin spýtur, um miðjan fyrri hálfleik. Hann fékk boltann frá Birki Bjarnasyni á miðjum vallarhelmingi Albaníu og óð gegn þremur varnarmönnum, komst í gegnum þá og skoraði framhjá Etrit Berisha í markinu.

Liðin sköpuðu sér ekki mikið af færum í leiknum og einstaklingsframtak Jóhanns þeim mun mikilvægara. Rúnar Már Sigurjónsson var reyndar nálægt því að næla í vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum en fékk í staðinn gult spjald fyrir meintan leikaraskap. Á hinum enda vallarins stóðu Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason fyrir sínu, eins og kóngar í ríki sínu þegar fyrirgjafir bárust inn í teiginn, og lítið reyndi á Hannes Þór Halldórsson sem þó varði mjög vel skot í upphafi leiks.

Jóhann varð að fara af velli snemma í seinni hálfleik en hann hefur glímt við kálfameiðsli undanfarið. Leikurinn fjaraði hægt og rólega út án þess að mikil hætta skapaðist við mark Íslands en Kolbeinn Sigþórsson komst næst því að bæta við marki í uppbótartíma þegar skot hans úr teignum var naumlega varið.

Ísland er því með sex stig eftir þrjá fyrstu leiki sína, líkt og Tyrkland og Frakkland sem mætast síðar í dag, en Albanía er með 3 stig. Moldóva og Andorra eru með 0 stig og mætast í dag. Tvö efstu lið riðilsins komast á EM. Næsti leikur Íslands er við Tyrkland á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld.

Mbl.is er á Laugardalsvelli og viðtöl og viðbrögð af blaðamannafundum koma á vefinn innan skamms auk einkunnagjafar.
Ísland 1:0 Albanía opna loka
90. mín. Fjórar mínútur af uppbótartíma eftir.
mbl.is

Bloggað um fréttina