Gamla góða bandið frá EM

Kári Árnason er á leið til Íslands þar sem hann …
Kári Árnason er á leið til Íslands þar sem hann mun spila með Víkingi Reykjavík í úrvalsdeild karla. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að við höfum svarað öllum gagnrýnisröddum með þessum sigri í kvöld,“ sagði Kári Árnason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við vitum nákvæmlega hvað við getum og þetta var bara sama gamla góða bandið frá EM 2016 sem spilaði í kvöld og við svöruðum vel fyrir okkur. Við vissum að allt þetta umtal fyrir leik myndi hjálpa okkur miklu meira en þeim. Við erum sterkari andlega en þeir og þeir missa hausinn stundum þegar á móti blæs. Ég er mest svekktur með að hafa ekki bara klárað leikinn í fyrri hálfleik því við hefðum hæglega getað verið 3:0-yfir í hálfleik og þá hefði leikurinn í raun verið búinn.“

Kári var svekktur með markið sem íslenska liðið fékk á sig í dag.

„Við sköpuðum fullt af færum til þess að skora þriðja markið en í staðinn fá þeir horn og það var ákveðið klúður af okkar af hálfu að gefa þeim þetta horn til að byrja með og hvað þá að gefa þeim markið. Þeir tvöfalda á okkur í teignum þarna í jöfnunarmarkinu og það var í raun bara lítið við þessu marki að gera því miður.“

Varnarmaðurinn öflugi hrósaði leikmönnum liðsins í hástert, þar á meðal Jóni Daða Böðvarssyni og Kolbeini Sigþórssyni, framherjum íslenska liðsins.

„Þeir skapa sér ekki neitt í leiknum og Jón Daði var þriggja manna maki þarna. Svo kemur Kolli (Kolbeinn Sigþórsson) inn á og það var frábært að sjá hann aftur á vellinum. Allir í liðinu vita hversu góður hann er og hann á að vera með, þótt hann geti bara spilað tíu eða fimm mínútur. Raggi átti svo auðvitað stórleik eins og venjulega og kláraði þetta fyrir okkur.“

Kári er á leiðinni heim í íslenska boltann þar sem hann mun spila fyrir Víking Reykjavík eins og staðan er í dag.

„Í fyrra ætlaði ég að koma heim en mér bauðst gott tækifæri að spila í fínni deild á góðum launum og ég tók því. Ef ég fæ eitthvert frábært boð í dag verður erfitt að segja nei við því en eins og staðan er í dag þá er planið að koma heim og spila fyrir Víking,“ sagði Kári Árnason í samtali við mbl.is.

mbl.is