Gylfi hrósar Jóni Daða í hástert

Gylfi Þór Sigurðsson einbeittur í leiknum í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson einbeittur í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson var kátur eftir 2:1-sigur Íslands á Tyrklandi í undankeppni EM í fótbolta í kvöld. Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í fyrri hálfleik. Gylfi er ánægður með spilamennsku íslenska liðsins að undanförnu. 

„Við erum búnir að spila mjög vel í þeim keppnum sem hafa skipt okkur máli fyrir utan HM þar sem við vorum í erfiðum riðli og hlutirnir gengu ekki upp. Við vorum mjög góðir í undankeppni HM og við erum búnir að vera góðir í þessari undankeppni og gert það sem hefur þurft til. Það er frábært að vera með níu stig eftir fjóra leiki og búnir að spila við Frakka úti.“

Gylfi var mjög ánægður með leikinn í kvöld og segir hann hafa gengið fullkomlega upp, fyrir utan markið sem Tyrkland skoraði seint í fyrri hálfleik. 

Leikplanið gekk fullkomlega upp 

„Þessi leikur gekk mjög vel og leikplanið gekk fullkomlega upp. Það var frábært að skora tvö mörk snemma í leiknum en líka svekkjandi að fá á sig mark úr horni. Okkur leið samt mjög vel þótt þeir væru meira með boltann. Þeir fengu kannski einhver færi í lokin en fyrir utan það var þetta mjög vel spilaður leikur hjá okkur.“

Gylfi hrósaði Jóni Daða Böðvarssyni sérstaklega í leikslok og segir það afar gott að spila með framherjanum stóra og stæðilega. 

„Jón Daði var geggjaður í þessum leik. Hann er ekki búinn að spila lengi og það kom mér á óvart hversu vel hann spilaði. Það er mjög gott að spila með honum og hann heldur boltanum mjög vel uppi. Hann fær spjöld á hina leikmennina, aukaspyrnur, innköst og ógnar alltaf fyrir aftan varnarmennina.

Hann býr til svæði og gefur okkur hinum tíma til að halda boltanum,“ sagði Gylfi sem segir riðilinn vera þróast á þá vegu sem hann bjóst við, en Ísland er með níu stig eins og Frakkland og Tyrkland. 

Gylfi Þór hrósaði Jóni Daða Böðvarssyni eftir leik.
Gylfi Þór hrósaði Jóni Daða Böðvarssyni eftir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svipað og við bjuggumst við fyrir utan að Tyrkir unnu Frakka. Við getum bara stjórnað því sem við getum gert. Við þurfum að vinna næstu tvo leiki og það myndi koma okkur í fína stöðu,“ sagði Gylfi. Fram undan hjá Gylfa er hans eigið brúðkaup á Ítalíu og segir hann hausinn hafa verið lengi þar. 

„Hann er búinn að vera þar síðustu mánuði. Það er mikið að hugsa um og mikið að plana. Ég get ekki beðið,“ sagði Gylfi Þór. 

mbl.is