Ísland stöðvaði Tyrki í Laugardalnum

Eftir að hafa ekki fengið á sig mark í fyrstu þremur leikjunum í undankeppni EM karla í knattspyrnu og unnið heimsmeistara Frakka á laugardagskvöld voru Tyrkir stöðvaðir þegar þeir heimsóttu Ísland á Laugardalsvöllinn í kvöld. Ísland vann 2:1 og er nú með níu stig eins og Tyrkir og Frakkar í efstu þremur sætum riðilsins.

Íslenska liðið setti tóninn snemma leiks þegar Birkir Bjarnason komst í gott færi eftir lúmska sendingu Gylfa Þórs Sigurðssonar, en skotið var varið. Ísland náði smátt og smátt undirtökunum eftir þetta og á um 20 mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn stjórnaði liðið algjörlega leiknum.

Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 21. mínútu. Eftir brot á Gylfa utan teigs tók Jóhann Berg Guðmundsson aukaspyrnu með vinstri, skrúfaði boltann inn í teig þar sem varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson henti sér fram á markteignum og skallaði í netið. Hans fjórða landsliðsmark í 88. landsleiknum og staðan orðin 1:0 fyrir Ísland.

Þetta gaf íslenska liðinu sannarlega byr undir báða vængi og eftir þrjár tilraunir á markið á fimm mínútna kafla kom annað mark á 32. mínútu. Gylfi tók þá hornspyrnu frá vinstri, Birkir Bjarnason skallaði boltann úr miðjum teignum út á fjærstöngina þar sem Ragnar var mættur og skallaði í netið. Hans annað mark í leiknum, staðan 2:0 fyrir Ísland og rétt rúmur hálftími liðinn.

Mark í fyrstu marktilraun Tyrkja

Tyrkir sóttu aðeins í sig veðrið eftir annað markið, náði í fyrsta sinn einhverju spili sín á milli en ógnuðu ekki marki Íslands að neinu ráði. Ekki fyrr en á 40. mínútu þegar liðið fékk sína fyrstu hornspyrnu í leiknum. Eftir hana var það Dorukhan Toköz sem stökk hæst í teignum og skallaði boltann í netið, fyrsta tilraun Tyrkja í leiknum og staðan nú orðin 2:1. Þannig var hún í hálfleik.

Íslenska liðið ógnaði enn mun meira eftir hlé. Gylfi átti meðal annars hörkuskot utan teigs sem fór rétt framhjá. Á meðan hélt varnarlínan vel og Hannes Þór Halldórsson þurfti lítið að hafa sig frammi í markinu.

Það að aðeins einu marki munaði hélt íslenska liðinu enn frekar á tánum og börðust íslensku strákarnir um alla bolta. Jón Daði Böðvarsson fór þar einna fremstur í flokki í sínum fyrsta alvöru leik frá því í febrúar, en Kolbeinn Sigþórsson tók svo við hans hlutverki í framlínunni eftir rúmlega klukkutíma leik.

Stíf pressa að marki Íslands í lokin

Tyrkir sóttu enn frekar í sig veðrið þegar á leið og þegar um stundarfjórðungur var eftir pressuðu þeir töluvert á meðan farið var að draga af íslenska liðinu. Merih Demiral fékk dauðafæri á íslenska teignum eftir aukaspyrnu þegar um tíu mínútur voru eftir og ljóst að pressan myndi síst minnka síðustu mínúturnar.

Ísland lá þó ekki bara í vörn heldur náði að bíta frá sér. Ragnar Sigurðsson fékk meðal annars úrvalsfæri til þess að fullkomna þrennuna þegar hann stangaði aukaspyrnu Gylfa yfir þegar fimm mínútur voru eftir.

Það voru fimm mínútur í uppbótartíma og héldu eflaust flestir áhorfendur á Laugardalsvelli niðri í sér andanum á meðan tíminn leið. Íslenska liðið barðist til síðustu sekúndu, uppskar 2:1 sigur og fagnaði vel og innilega í leikslok. Þetta var 8. sigur Íslands á Tyrkjum í 12 viðureignum þjóðanna og hafa Tyrkir aldrei fagnað sigri á Laugardalsvelli.

Næsti leikur Íslands í undankeppninni er á heimavelli gegn Moldóvu þann 7. september. Ísland, Tyrkland og Frakkland eru nú öll með níu stig í riðlinum eftir fjóra leiki og raða sér í efstu þrjú sætin. Tvö efstu liðin í riðlinum fara beint á EM.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fjölmargar myndir úr leiknum má sjá með því að fletta efst í fréttinni. Viðtöl við leikmenn og þjálfara koma hingað á vefinn hér síðar í kvöld og þá verður nánar fjallað um leikinn á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

Ísland 2:1 Tyrkland opna loka
90. mín. Hakan Calhanoglu (Tyrkland) á skalla sem er varinn Þarna missti ég úr slag! Skalli utarlega í teignum sem fer í boga og Hannes þarf að blaka boltanum yfir. Fjúff!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert