Þess vegna tók ég að mér þetta starf

Erik Hamrén, þjálfari íslenska liðsins.
Erik Hamrén, þjálfari íslenska liðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög, mjög ánægður með þessi þrjú stig og stigin sex sem við ætluðum okkur í þessum tveimur erfiðu leikjum við Tyrki og Albana,“ segir Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, eftir 2:1-sigurinn gegn Tyrklandi í undankeppni EM í kvöld.

„Við lékum virkilega vel í fyrri hálfleik. Við vildum að þeir væru aðeins meira með boltann svo við gætum beitt skyndisóknum og föstum leikatriðum, og kannski hefði staðan átt að vera 3:0 í hálfleik miðað við færin sem við fengum. Þegar þeir minnkuðu muninn í 2:1 var það eins og kjaftshögg. En við gerðum vel í seinni hálfleiknum, vorum sniðugir og ég er mjög stoltur af leikmönnunum yfir því hvernig þeir gerðu í þessum leikjum sem við urðum að vinna. Við erum með í þessu og þetta verður forvitnilegt haust,“ segir Hamrén.

„Leikáætlun okkar var frábærlega fylgt eftir. Við vildum vera aftar en gegn Albaníu, leyfa þeim að hafa boltann og pressa svo á þá og reyna að vinna boltann og ná skyndisóknum. Við gerðum það mjög vel. Þegar maður verst vel þá gefast tækifæri á skyndisóknum. Við reyndum að vera mjög öflugir í föstum leikatriðum og skoruðum tvö frábær mörk. Raggi [Ragnar Sigurðsson] hefði í rauninni átt að skora þrjú því besta færið hans var þriðja færið sem hann fékk. Allt liðið var stórkostlegt, í allri sinni vinnu saman. Um það snýst fótbolti, sérstaklega fyrir Ísland, að gera þetta saman,“ segir Hamrén.

Jón Daði með stórkostlega hæfileika fyrir þetta lið

Jón Daði Böðvarsson var óvænt valinn í leikmannahóp Íslands fyrir leikina tvo þrátt fyrir að hafa ekkert spilað með sínu félagsliði síðan í febrúar. Í kvöld var hann í byrjunarliðinu og átti frábæran leik.

„Við tókum kannski áhættu með því að taka þá ákvörðun að byrja að vinna með honum tveimur vikum áður en hópurinn hittist. Fyrst vann hann einn í því að byggja upp sitt líkamlega atgervi. Viku áður en hópurinn hittist þurftum við svo að hitta hann til að vita hvort hann gæti verið með, og hann tók sífellt skref upp á við og við völdum hann svo í hópinn. Hann var góður í þessari viku líka, spilaði ekki í síðasta leik en miðað við það sem við vildum gera í þessum leik var hann rétta valið, vegna sinna hæfileika. Hann sýndi þá heldur betur og ég var mjög hrifinn af hans frammistöðu. Ég sagði honum að hann þyrfti að hugsa vel um sig núna svo hann gæti átt góða leiktíð næsta vetur, því síðasta tímabil var honum erfitt vegna mikilla meiðsla. Hann hefur stórkostlega hæfileika fyrir þetta lið. Hann skorar ekki mikið, en vinnuframlagið hans er stórkostlegt,“ segir Hamrén. Saknaði hann Jóns Daða, sem misst hefur af flestum leikjum landsliðsins undir stjórn Svíans vegna meiðsla?

„Maður getur ekki verið að sakna leikmanna sem þjálfari, en það var mikið um meiðsli þegar ég tók við síðasta haust í Þjóðadeildinni. Þannig getur þetta verið. Ég er ánægður núna, þegar það er lítið um meiðsli, því maður þarf góða leikmenn og vonandi verður næsta haust betra og við með marga leikmenn til taks, því þá getum við gert þetta. Þess vegna tók ég að mér þetta starf. Þá getum við farið á EM, þó að svo margir hafi sagt að ómögulegt væri fyrir svona litla þjóð að komast á þriðja stórmótið í röð, en þá þurfum við á því að halda að menn séu heilir heilsu. Þau mál líta mun betur út núna,“ segir Hamrén.

mbl.is