Þetta er sokkur upp í alla

Hörður Björgvin Magnússon skallar boltann í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon skallar boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hörður Björgvin Magnússon spilaði síðustu 20 mínúturnar í 2:1-sigri íslenska landsliðsins á Tyrklandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld. Eins og gefur að skilja var Hörður ánægður með góðan sigur í leikslok. 

„Það er geðveikt að vinna Tyrkina eftir að þeir unnu Frakkana. Það sýnir hversu góðir við erum og hversu góð liðsheildin er. Það er alltaf erfitt að komast inn í leikinn en þetta gekk vel í dag og ég er stoltur af liðinu,“ sagði Björgvin sem er ekki ósáttur við að fá aðeins að spila 20 mínútur samtals gegn Albaníu og Tyrklandi. 

„Alls ekki. Ég er sáttur fyrir hönd Ara. Hann spilaði vel á móti Albaníu og svo aftur í dag. Það er leiðinlegt að hann var tæpur í lærinu og þurfti að fara af velli. Ég kom þá inn og gerði mitt.“

Hörður segir alls ekkert stress hafa verið í íslenska liðinu í lokin þegar Tyrkland var mikið með boltann og að leita að jöfnunarmarki. 

„Ekki neitt. Við höfum spilað marga leiki saman og þekkjum það að fá mark á okkur og að fá ekki mark á okkur á lokamínútunum. Við náðum að vera rólegir og við reyndum að koma boltanum fram til að fá ekki á okkur jöfnunarmark.“

Hörður viðurkennir að sigurinn sé enn sætari fyrir þær sakir að Tyrkirnir voru með mikil læti fyrir leikinn. „Þetta er geðveikt. Þetta gerði okkur enn klárari og þetta er sokkur upp í alla sem þurfa að taka sokk upp í sig,“ sagði Hörður Björgvin. 

mbl.is