Dóttirin heldur að þetta sé Mallorca

Erik Hamrén var heldur betur kátur í gærkvöld enda Ísland …
Erik Hamrén var heldur betur kátur í gærkvöld enda Ísland búið að ná í 9 stig af 12 mögulegum í undankeppni EM til þessa. mbl.is/Eggert

„Ég er búinn að vera hérna í þrjár og hálfa viku og það er búin að vera sól hérna upp á hvern einasta dag,“ sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, laufléttur í bragði á blaðamannafundi í gærkvöld.

Hamrén varði meiri tíma en venjulega hér á landi til undirbúnings fyrir leikina við Albaníu og Tyrkland, ekki síst vegna óvissu um líkamlegt ástand leikmanna á borð við Jón Daða Böðvarsson sem lét svo sannarlega ljós sitt skína í sigrinum á Tyrklandi í gær. Hamrén segist ekki hafa verið búinn að ákveða hvað hann myndi gera eftir leikina tvo en úr því að svo vel gekk, og fjölskylda hans sé ánægð með góða veðrið, vilji hann verja nokkrum dögum til viðbótar hér á landi áður en haldið verið heim til Svíþjóðar.

„Dóttir mín kom hingað að hitta mig og eiginkonu mína, þær hafa verið hérna frá því daginn fyrir leikinn við Albaníu, og hún heldur bara að þetta sé Mallorca. Þessir dagar hafa verið stórkostlegir og planið núna er að vera hérna aðeins lengur, og gera eitthvað hérna. Ég gat ekki gert nein plön því ef við hefðum tapað þessum tveimur leikjum þá hefði ég sennilega farið bara heim snemma í fyrramálið. En núna getum við verið hérna og átt nokkra góða daga á Íslandi, og skoðað þessa fallegu eyju saman. Síðan ætla ég bara að eiga gott sumar og ég held að fjölskyldan mín sé ánægðust, því hún mun eiga gott sumar. Síðan byrjum við að undirbúa okkur fyrir leikina í haust,“ sagði Hamrén hress þegar hann var spurður hvernig hann hygðist nýta sumarfríið sitt.

mbl.is