Stórveldaslagur á Akranesi - Valur úr fallsæti?

KR og ÍA léku til úrslita í Lengjubikarnum í vor. …
KR og ÍA léku til úrslita í Lengjubikarnum í vor. Arnar Már Guðjónsson verður ekki með í dag vegna leikbanns en Óskar Örn Hauksson skoraði úr aukaspyrnu síðast þegar liðin mættust í deildarleik. mbl.is/Hari

Tvö af sigursælustu liðum Íslands, KR og ÍA, mætast á Akranesi í dag í toppslag í úrvalsdeild karla í fótbolta. Íslandsmeistarar Vals freista þess að komast úr fallsæti með sigri á ÍBV og þjálfarar KA og Grindavíkur stýra liðum gegn gömlum lærisveinum á Akureyri.

Áttunda umferðin hófst í gær og henni lýkur með þremur leikjum í dag. Að vanda verður vel fylgst með gangi mála í öllum leikjum hér á mbl.is.

Leikir dagsins:
16.00 ÍA - KR
16.00 Valur - ÍBV
17.00 KA - Grindavík

Það er orðið langt um liðið síðan ÍA og KR mættust síðast í leik þar sem bæði lið eru með í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en samtals hafa þau unnið 44 Íslandsmeistaratitla af 107 sem keppt hefur verið um. ÍA er með 16 stig eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum í deildinni í síðustu umferð fyrir landsleikjahléið, gegn ÍBV, en KR er með 14 stig.

KR verður án Björgvins Stefánssonar sem byrjar sitt fimm leikja bann í dag, sem og Danans Kennies Choparts sem fékk rautt spjald í sigrinum á KA í síðustu umferð. ÍA verður án Arnars Más Guðjónssonar.

ÍA og KR mættust síðast á Akranesi í ágúst 2017 þar sem Óskar Örn Hauksson tryggði KR 1:1-jafntefli með marki úr aukaspyrnu af löngu færi undir lokin. 

Tímabilið hefur reynst Ólafi Jóhannessyni og hans mönnum erfitt.
Tímabilið hefur reynst Ólafi Jóhannessyni og hans mönnum erfitt. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Tveir í banni hjá ÍBV og Hannes meiddur

Valsmenn freista þess að komast loks á beinu brautina þegar þeir mæta Eyjamönnum í dag. Íslandsmeistararnir verða án landsliðsmarkvarðarins Hannesar Þórs Halldórssonar, vegna meiðsla, en eru ekki á flæðiskeri staddir með Anton Ara Einarsson í sínum hópi. ÍBV saknar Telmos Castanheiras og Diogos Coelhos sem báðir taka út leikbann, en Coelho verður einnig í banni gegn Breiðabliki í næstu umferð.

Valur vann báðar viðureignir sínar við ÍBV í fyrra, sem og í hitteðfyrra. Þegar liðin mættust í Reykjavík í fyrra skoraði Patrick Pedersen þrennu í 5:1-sigri. ÍBV fagnaði síðast sigri á Hlíðarenda árið 2012, 3:0, með mörkum frá Rasmus Christiansen (sem nú er leikmaður Vals en að láni hjá Fjölni), Christian Olsen og Tryggva Guðmundssyni.

Refskák Óla Stefáns og Túfa

Þjálfarar KA og Grindavíkur, þeir Óli Stefán Flóventsson og Srdjan Tufegdzic, ættu að þekkja andstæðinga sína í dag ansi vel en þeir höfðu sætaskipti eftir síðustu leiktíð. Túfa var fyrst leikmaður KA árið 2005 og tók við þjálfun liðsins 2016, og mætir nú á sinn gamla heimavöll.

KA vann báða leiki sína við Grindavík í fyrra en leikurinn á Akureyrarvelli var bráðfjörugur og endaði 4:3, þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk fyrir KA en þrenna frá Sam Hewson, núverandi leikmanni Fylkis, reyndist ekki nóg fyrir Grindavík. Þetta var síðasti heimaleikur KA undir stjórn Túfa.

Ýmir Már Geirsson tekur út leikbann í liði KA í dag líkt og Rodrigo Gomes hjá Grindavík, en báðir hafa safnað fjórum gulum spjöldum í sumar.

Srdjan Tufegdzic stýrði KA til sigurs í 1. deild árið …
Srdjan Tufegdzic stýrði KA til sigurs í 1. deild árið 2016 eftir 12 ára fjarveru liðsins frá úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert