Valsmenn léku sér að slökum Eyjamönnum

Breki Ómarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson í kapphlaupi í dag.
Breki Ómarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson í kapphlaupi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir Ólafur Karl Finsen og Lasse Petry skoruðu báðir tvívegis fyrir Valsmenn þegar liðið vann öruggan og sannfærandi 5:1-sigur gegn ÍBV í áttundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en Eyjamenn vörðust mjög aftarlega á vellinum með fimm manna varnarlínu. Sigurður Egill Lárusson átti hörkuskot að marki strax á 2. mínútu en Halldór Páll varði vel frá honum. Andri Adolphsson fékk fínt færi til að koma Valsmönnum yfir á 12. mínútu en skot hans úr fínu færi var laflaust og beint á Halldór í marki ÍBV. Lasse Petry kom Val yfir á 20. mínútu þegar hann lét vaða af 25 metra færi eftir stutta hornspyrnu Ólafs Karls Finsens og boltinn söng í samskeytunum og staðan orðin 1:0. Valsmenn voru líklegri til þess að bæta við öðru marki í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágæt sóknarfæri. Eyjamenn lágu hins vegar áfram til baka, eftir að hafa lent undir, og staðan í hálfleik markalaus.

Strax á 52. mínútu jafnaði Sigurður Arnar Magnússon metin fyrir Eyjamenn með frábæru skoti af 25 metra færi en Anton Ari í marki Valsmanna kom engum vörnum við. Valsmenn gáfust ekki upp og strax í næstu sókn átti Sigurður Egill frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Andra Adolphsson sem skoraði af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 2:1. Ólafur Karl Finsen bætti við þriðja marki Valsmanna fjórum mínútum síðar eftir fallegt þrhyrningsspil við Andra Adolphs og Lasse Petry bætti við fjórða markinu á 64. mínútu, aftur með frábæru skoti fyrir utan og staðan orðin 4:1.

Leikurinn róaðist mikið eftir þennan afar fjöruga leikkafla en Kaj Leo í Bartalsstovu fékk frábært færi til þess að skora fimmta mark Valsmanna á 70. mínútu þegar hann skaut yfir úr markteignum fyrir opnu marki. Ólafur Karl Finsen bætti við fimmta marki Valsmanna á 84. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Birkis Más Sævarssonar og Valsmenn fögnuðu sigri. Sigurinn fleytir Valsmönnum upp í níunda sæti deildarinnar og eru þeir komnir með sjö stig, líkt og Víkingur Reykjavík, en ÍBV er í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig eftir fyrstu átta umferðirnar.

Valur 5:1 ÍBV opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert