Víkingi mistókst að fara á toppinn

Adam Árni Róbertsson skoraði sigurmarkið.
Adam Árni Róbertsson skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Keflavík gerði góða ferð vestur til Ólafsvíkur þar sem liðið lagði Víking Ó. af velli í lokaleik 7. umferðar Inkasso-deildar karla í fótbolta, 1. deild. Adam Árni Róbertsson skoraði sigurmarkið á 64. mínútu. 

Adam Árni hefur spilað vel í sumar og er hann kominn með fimm mörk, eins og Gunnar Örvar Stefánsson hjá Magna. Aðeins Álvaro Montejo hjá Þór er með fleiri mörk eða sjö. 

Fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur og var lítið um færi. Leikurinn lifnaði hins vegar við í seinni hálfleik og braut Adam Árni loks ísinn eftir rúmlega klukkutíma. Eftir markið voru heimamenn nálægt því að jafna metin en Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur lék vel. 

Bæði lið eru með 13 stig, eins og Fjölnir. Þór er í toppsætinu með 15 stig. Keflavík er í öðru sæti vegna markatölu, Fjölnir í þriðja og Víkingur Ó. í fjórða sæti. 

Staðan í Innkasso-deildinni.
Staðan í Innkasso-deildinni. Ljósmynd/mbl.is
mbl.is