„Blikar áttu þetta bara skilið í dag“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson.

„Við erum með ágætistök á leiknum en svo jafna Blikar, taka yfir leikinn og klára þetta sannfærandi. Ég óska þeim bara til hamingju með það,“ sagði hnugginn Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 3:1-tap gegn Breiðabliki í 9. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í kvöld.

Stjarnan komst yfir snemma í síðari hálfleik en skömmu síðar virtist allur vindur úr seglum heimamanna er Blikar sneru taflinu sér í vil með þremur mörkum.

„Við misstum skipulag og kraft fram á við. Við þurfum auðvitað að skoða þetta betur en þeir skora draumamark úr hornspyrnu og svo eitt úr aukaspyrnu, þá er staðan allt í einu orðin 2:1. Blikar áttu þetta bara skilið í dag.“

Skömmu áður en Blikar jöfnuðu metin gerði Rúnar Páll tvöfalda skiptingu er hann tók af velli markaskorarann Ævar Inga Jóhannesson og Sölva Snæ Guðbjargarson en þeir voru búnir að vera ansi sprækir í leiknum. Rúnar segir skiptingarnar auðvitað hafa riðlað leik sinna manna eitthvað.

„Að sjálfsögðu gera þær það, en mér fannst vanta smá orku í Ævar og Sölva. Auðvitað getur maður alltaf verið vitur eftir á en þú verður að taka ákvarðanir sem þjálfari og standa og falla með þeim.“

Þá gaf Rúnar lítið fyrir þær sögusagnir að Stjarnan sé á höttunum eftir nýjum markverði en Haraldur Björnsson hefur verið gagnrýndur undanfarið fyrir leik sinn í marki liðsins.

„Nei, nei. Halli er frábær markmaður og hefur gert vel fyrir okkur. Það geta allir átt dapra leiki inn á milli og gert mistök, hann er engin undantekning á því. En hann er okkar markmaður og við stöndum með honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert