„Höfum ekki keypt neinn Íslending“

Ísak Óli Ólafsson í leik með Keflavík á síðustu leiktíð.
Ísak Óli Ólafsson í leik með Keflavík á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Víkurfréttir

Hans Jörgen Haysen, yfirmaður íþróttamála hjá danska knattspyrnufélaginu SönderjyskE, segir að félagið sé ekki búið að ganga frá kaupunum á Ísaki Óla Ólafssyni, varnarmanni Keflavíkur, en Keflavík greindi frá félagaskiptum leikmannsins á Facebook-síðu sinni á sunnudaginn síðasta.

Haysen segir að enginn samningur hafi verið undirritaður af hálfu SönderjyskE. „Við höfum ekki skrifað undir neina samninga og við höfum ekki keypt neinn Íslending,“ sagði Haysen í samtali við jv.dk. „Við höfum fylgst með þessum leikmanni að undanförnu og haft samband við Keflavík,“ sagði Haysen ennfremur.

Ísak Óli er einungis 18 ára gamall en hann á að baki 54 meistaraflokksleiki með Keflavík þar sem hann hefur skorað tvö mörk. Þá á hann að baki 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands en Ísak hefur verið fyrirliði Keflavíkurliðsins í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert