Langur vegur framundan hjá kvennalandsliðinu

Hlín Eiríksdóttir er ein af vonarstjörnum íslenska kvennalandsliðsins en hún …
Hlín Eiríksdóttir er ein af vonarstjörnum íslenska kvennalandsliðsins en hún skoraði sitt annað landsliðsmark í gær gegn Finnlandi. AFP

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann 2:0-sigur gegn Finnlandi í vináttuleik á Leppävaaran-vellinum í Espoo í Finnlandi í gær. Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum en þau komu bæði í fyrri hálfleik.

Finnar byrjuðu leikinn betur og voru sterkari aðilinn, fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Á 21. mínútu átti Agla María Albertsdóttir frábæran sprett upp hægri kantinn og sendi fyrir markið. Varnarmenn Finna náðu að reka tána í boltann, sem hrökk út úr teignum, og þar var Hlín Eiríksdóttir mætt og hún hamraði knettinum í samskeytin nær með viðstöðulausu skoti. Dagný Brynjarsdóttir bætti við öðru marki íslenska liðsins á 32. mínútu þegar hún fékk frábæra stungusendingu frá Glódísi Perlu Viggósdóttir. Dagný tók boltann á kassann, lagði hann fyrir sig, og skoraði af stuttu færi í netið og þar við sat.

Uppspilið stórt áhyggjuefni

Þrátt fyrir sigurinn var leikur íslenska liðsins ekkert til að hrópa húrra yfir. Finnar voru sterkari aðilinn í leiknum og sköpuðu sér mun betri marktækifæri. Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð vaktina mjög vel í marki íslenska liðsins og bjargaði oft á tíðum meistaralega. Helsta áhyggjuefnið eftir þennan leik er sú staðreynd að Finnar virðast vera með betur spilandi landslið en Ísland, þrátt fyrir að íslenska liðið eigi að vera sterkara á pappír. Uppspil íslenska liðsins gekk ævintýralega illa og liðið átti í stökustu vandræðum með að tengja saman fjórar til fimm sendingar á milli leikmanna, mest allan leikinn. Bakverðir íslenska liðsins voru mikið að reyna koma boltanum aftur fyrir varnarmenn Finna sem gekk engan veginn upp og íslenska liðið tapaði boltanum trekk í trekk.

Þetta er vandamál sem hefur einkennt liðið, undanfarin ár, og það kom því undirrituðum mikið á óvart að í hvert skipti sem Guðbjörg Gunnarsdóttir handsamaði knöttinn í seinni hálfleik var farið í að sparka boltanum langt fram völlinn. Það bar ekki mikinn árangur og miðverðir Finna unnu alla skallabolta og komu honum svo beint í spil á miðjumenn sína og íslenska liðið lagðist aftur í vörn. Ef það á ekki að nýta vináttuleikina í að reyna ná upp góðum spilköflum, hvenær þá? Þegar allt kemur til alls voru það einstaklingsgæði Hlínar Eiríksdóttur, Glódísar Perlu Viggósdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttir sem skildi liðin að í Espoo í gær.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert