Sögulegur áfangi hjá Andra

Andri Rafn Yeoman í leik með Breiðabliki.
Andri Rafn Yeoman í leik með Breiðabliki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Andri Rafn Yeoman verður í kvöld fyrsti leikmaðurinn í sögu Breiðabliks til að spila 200 leiki fyrir félagið í efstu deild karla í knattspyrnu.

Andri er í byrjunarliði Breiðabliks sem sækir Stjörnuna heim en leikur liðanna hefst klukkan 19.15 á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Andri, sem er 27 ára gamall, hefur leikið allan sinn feril með Breiðabliki og spilað með meistaraflokki félagsins samfleytt frá árinu 2009, þannig að þetta er hans ellefta tímabil með því í efstu deild. Þar af lék hann alla 22 leikina þrjú tímabil í röð, frá 2015 til 2017.

Hann sló leikjamet Breiðabliks í deildinni árið 2016, þá með því að fara fram úr Arnari Grétarssyni og spila 144. leikinn, og hefur verið handhafi metsins síðan.

Í dag jafnar einmitt Elfar Freyr Helgason við Kristin Jónsson í öðru til þriðja sæti hjá félaginu en þeir hafa hvor um sig spilað 148 leiki fyrir Breiðablik í deildinni. Arnar er síðan fjórði með 143 leiki.

mbl.is