Ótrúleg endurkoma á Meistaravöllum

Haukur Páll Sigurðsson sækir að Óskari Erni Haukssyni á Meistaravöllum …
Haukur Páll Sigurðsson sækir að Óskari Erni Haukssyni á Meistaravöllum í kvöld. mbl.is/Arnþór

KR vann ótrúlegan 3:2-sigur á Íslandsmeisturum Vals í stórleik 9. umferðar Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í kvöld. KR-ingar lentu 2:0 undir en sneru taflinu sér í vil og skelltu sér jafnframt á topp deildarinnar með glæstum sigri.

Það er ávallt mikil spenna þegar Reykjavíkurrisarnir mætast og á því var engin undantekning í Frostaskjóli í kvöld. Heimamenn í KR, sem eygðu toppsætið með sigri í kvöld, fóru kröftuglega af stað en það voru aftur á móti meistararnir sem brutu ísinn á 16. mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið eftir góðan undirbúning Andra Adolphssonar.

Staðan var svo skyndilega orðin 2:0 snemma í síðari hálfleik eftir að KR-ingar gerðust sekir um mistök í varnarleiknum. Finnur Tómas Pálmason átti þá slæma sendingu úr öftustu línu, beint á Andra sem kom boltanum á Ólaf Karl Finnsen. Sá sneri af sér varnarmann og skoraði með föstu skoti í fjærhornið við vítateigslínuna. KR-ingar áttu þó heldur betur eftir að svara þessu.

Pálmi Rafn Pálmason minnkaði muninn á 56. mínútu eftir að Arnþór Ingi Kristinsson flikkaði boltanum til hans eftir hornspyrnu og á 61. mínútu var staðan orðin jöfn. Kennie Chopart átti þá fyrirgjöf frá hægri, Tobias Thomsen kassaði boltann fyrir Alex Frey Hilmarsson og sá þrumaði honum í netið af stuttu færi, staðan skyndilega orðin 2:2.

Á 78. mínútu var endurkoman svo fullkomnuð þegar Pablo Punyed þrumaði boltanum í samskeytin og inn, beint úr aukaspyrnu og KR-ingar snögglega komnir yfir, 3:2.

KR 3:2 Valur opna loka
90. mín. Alex Freyr Hilmarsson (KR) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert