„Þetta var bara algjört stórslys“

Kristinn Freyr Sigurðsson í Frostaskjóli í kvöld.
Kristinn Freyr Sigurðsson í Frostaskjóli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals, var að vonum ósáttur eftir 3:2-tap gegn KR í Frostaskjóli í kvöld en Valsarar komust í tveggja marka forystu. Meistararnir hafa farið brösuglega af stað á Íslandsmótinu og eru í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar eftir níu umferðir.

„Við vorum farnir að bíða eftir klukkunni, allt of snemma. Menn voru hættir að þora að fara á boltann og þá fær maður pressu á sig,“ sagði Kristinn við mbl.is eftir leik um af hverju Valsarar héldu ekki fengnum hlut í kvöld.

„Þeir fá mikið af hornspyrnum, minnka muninn úr einni og það kom þeim á bragðið. Svo bara heldur þessi keðjuverkun áfram, þetta er eitthvað sem við verðum að breyta fyrir næsta leik.“

Íslandsmeistararnir síðustu tvo ár eru nú búnir að tapa sex af níu leikjum sínum. „Þetta er auðvitað búið að vera erfitt sumar en við erum bara með of mikil gæði til að klikka, 2:0 yfir. Þetta var bara algjört stórslys! Það þýðir ekkert að grenja yfir þessu, það er bara leikur á sunnudaginn á móti Grindavík.“

„Við erum svo langt frá efsta sætinu að við getum ekkert verið að hugsa um töfluna. Það er leiðinlegt að þylja gamlar klisjur en fyrir okkur er þetta bara næsti leikur og reyna að taka þrjú stig þar.“

mbl.is