Valur gæti mætt Kolbeini í næstu umferð

Íslandsmeistararnir eru í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Íslandsmeistararnir eru í forkeppni Meistaradeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Vals munu mæta annaðhvort sænska meistaraliðinu AIK eða Ararat frá Armeníu komist Valsmenn áfram í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, en dregið var í aðra umferð í morgun.

Valsmenn mæta slóvensku meisturunum í Maribor í fyrstu umferð keppninnar, en dregið var í fyrstu umferðina í gær. Fyrri leikurinn fer fram að Hlíðarenda 9. eða 10. júlí og síðari leikurinn í Slóveníu 16. eða 17. júlí.

Sigurvegarinn mætir svo annaðhvort AIK eða Ararat-Armenia, en landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson leikur sem kunnugt er með AIK. Leikirnir í annarri umferð fara fram 23. eða 24. júlí og síðari leikirnir 30. eða 31. júlí. Valsmenn munu byrja á heimavelli í 2. umferðinni, komist þeir áfram.

Ef Valsmenn tapa fyrir Maribor fara þeir hins vegar áfram í 2. umferð í undankeppni Evrópudeildarinnar. Þar mæta þeir tapliðinu úr viðureign Ferencváros frá Ungverjalandi eða Ludogorets frá Búlgaríu.

Af Íslendingaliðum í pottinum er það að frétta að Rúnar Már Sigurjónsson og lið Astana frá Kasakstan mæta Maccabi Tel Aviv frá Ísrael komist liðið áfram í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar, en Astana mætir Cluj frá Rúmeníu í 1. umferðinni. Willum Þór Willumsson og lið BATE Borisov mætir annaðhvort Rosenborg frá Noregi eða Linfield frá Norður-Írlandi, komist BATE áfram eftir viðureign sína við Piast Gliwice frá Póllandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert