Finnst ég enn eiga góð ár eftir

Kári Árnason er kominn í uppeldisfélagið.
Kári Árnason er kominn í uppeldisfélagið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er frábært og ég er mjög ánægður. Það kom ekki neitt annað til greina en að spila fyrir Víking þar sem ég var að koma heim á annað borð," sagði Kári Árnason, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir að hann skrifaði undir samning við uppeldisfélagið sitt Víking í dag. 

Kári viðurkenndi að hann hefði fengið tilboð frá Tyrklandi, en þau hafi ekki heillað, því ákvað hann að koma heim. Kári var í svipaðri stöðu fyrir ári síðan, en ákvað þá að taka eitt ár hjá Genclerbirligi í Tyrklandi áður en hann gekk í raðir Víkings. 

„Ef að rétta boðið hefði komið á borðið hefði ég skoðað það. Mér bauðst að spila í Tyrklandi en ég hafði ekki áhuga á því, svo þetta var endanleg ákvörðun. Í fyrra fannst mér ég ekki vera tilbúinn í að koma heim strax. Mér finnst ég enn eiga góð ár eftir, en í fyrra fannst mér ég geta spilað í sterkari deild í lengri tíma. Það hefur ekki breyst mikið, en núna er ég tilbúnari andlega við að koma heim."

Við ætlum okkur klárlega á EM

Kári er orðinn 36 ára og hann segir óvíst hvað taki við eftir af samningur hans við Víking renni sitt skeið eftir næsta sumar. Hann ætlar sér fyrst á EM með landsliðinu. 

„Ég er ekki búinn að ákveða það. Við ætlum okkur á EM og þá myndi ég klára tímabilið hérna eftir EM. Svo er hægt að taka stöðuna þegar þetta er búið. Við ætlum okkur klárlega á EM og sérstaklega eftir þessa sumarleiki. Það var ákveðinn skellur að Tyrkland skildi vinna Frakkland, ef það hefði ekki gert værum við í frábærri stöðu. Núna erum við þrjú efst og við verðum að vinna Tyrkland úti og þá verðum við í helvíti góðum málum," sagði Kári sem segir pressa á sér að spila vel með landsliðinu, núna þegar hann er fluttur heim. 

„Það er meiri pressa á mér að standa mér í landsleikjum. Ef ég stend mig ekki þá dett ég bara á bekkinn eða úr hópnum. Það er alveg í stöðunni að fara eitthvað á lán ef við erum enn þá í bullandi séns og á leiðinni í úrslitaleik í nóvember á móti Tyrklandi þá er ég opinn fyrir því að spila í einhverri deild."

Kári Árnason er lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Kári Árnason er lykilmaður í íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið er um unga og efnilega leikmenn í Víkingsliðinu í bland við leikmenn eins og Sölva Geir Ottesen og núna Kára sem eldri eru. 

„Þetta er mjög góð blanda og það er gott fyrir þessa stráka að fá reynsluraddir í bakið á þeim. Þeir verða þá að hlusta. Þeir eru mjög efnilegir og þeir vita það sjálfir og geta náð mjög langt. Það vantar hins vegar herslumuninn og vonandi getum við hjálpað þeim," sagði Kári, en hann mundi hvenær hann spilaði síðast með Sölva. 

„Ætli það hafi ekki verið á móti Kýpur úti, sem var eini leikurinn sem ég spilaði undir Óla Jó. Það er frábært að Sölvi sé hérna og það auðveldaði líka ákvörðunina um að koma heim," sagði Kári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert